Hvað einkennir vel heppnaðan hugbúnað? Ég hef velt þessu fyrir mér því um mánaðarmótin maí–júní 2024 lauk 19 ára sögu bókunarkerfisins Sirrýjar, kerfis sem ég skrifaði fyrir ferðaskrifstofuna Vesturferðir á Ísafirði.

Forsagan

Í gamla daga (um og eftir aldamót) var haldið utan um bókanir á Vesturferðum á tvennan hátt. Innbundin bók var notuð til að halda utan um Vigurferðir, þar sem hver dagur átti sína síðu. Lausblaðamappa var notuð til að halda utan um aðrar ferðir, einkum bátsferðir á Hornstrandir. Búið var til sérstakt blað með línum þar sem upplýsingar voru skrifaðar um nafn og fjölda farþega í hverri bókun.

Smám saman var augljóst að þetta þyrfti að tölvusetja. Ég leitaði dyrum og dyngjum að heppilegum opnum hugbúnaði en fann ekkert. Úr varð að ég skrifaði þetta bara sjálfur með dyggri aðkomu annars starfsmanns Vesturferða á þessum tíma, Greips Gíslasonar. Hann hafði skýra sýn á mikilvæga þætti í hönnun kerfisins, og merkilegt nokk fæst við það enn þann dag í dag meðfram öðrum verkum að vera millistykki milli forritara og þeirra sem þurfa nýjan hugbúnað eða heimasíðu.

Úr varð Sirrý, bókunarkerfi Vesturferða, nefnt í höfuðið á framkvæmdastjóra félagins frá stofnun þess 1993 til ársins 2003, Sigríði Ólöfu Kristjánsdóttur.

Forsíða auglýsingabæklings Vesturferða 2005, árið sem bókunarkerfið Sirrý var tekið í gagnið fyrst.

Uppbygging kerfisins

Fyrstu ferðirnar og bókanirnar voru settar inn í kerfið í júní 2005. Í grunninn er kerfið einfalt, og var það af þeirri illu nauðsyn að ég var ekki sérlega fær forritari. En það var svosem ekki þörf á neinum flækjum. Kerfið er MySQL venslagagnagrunnur og PHP framendi sem skrifar HTML kóða. Það að hafa kerfið veflægt var frekar mikil nýlunda fyrir mig, þar sem ég hafði fram að því að mestu forritað í Visual Basic.

Venslagrunnurinn sagði sig að mestu sjálfur. Hver ferð er skráð í ferðatöflu, í hverja ferð er hægt að skrá fleiri en eina bókun. Hver ferð er skráð á bát (sem getur líka verið rúta eða salur), og hver bátur er skráður á fyrirtæki. Auk þessa eru ýmsar aðrar stuðningstöflur, svo sem til að halda utan um starfsmenn.

Þá var hver ferð með brottfararstað og áfangastaði. Þannig var hægt að bóka farþega aðra leið, eins og fyrir bátsferðir á Hesteyri, en einnig báðar leiðir, ef ferðin var þess eðlis. Einmitt fyrir Hesteyrarferðirnar var þetta mikilvægt, því sumir nota Hesteyri sem upphafs- eða lokastað fyrir gönguferðir á Hornströndum. Aðrir fara í skipulagða ferð þar sem gengið er um svæðið og pönnukökur borðaðar í Læknishúsinu að göngutúr loknum, en þá fara farþegarnir með bátnum fram og til baka.

Bátafélögin gátu skráð sig inn til að sjá bókunarstöðu í rauntíma, hægt var að búa til greiðslutengla fyrir greiðslukort, senda farmiða í tölvupósti og ýmsar skýrslur. Þá hélt kerfið utanum sögu hverrar bókunar og ferðar. Hagræðið var mikið.

Farseðlar í aukafalli

Einn kostur sem ég hef verið hvað stoltastur af var prentun farseðla. Ég útbjó HTML síðu með farseðla í þríriti komust fyrir á sléttri A4-blaðsíðu. Svo keyptum við sérprentaðar A4-síður með tveimur rifgötum og vatnsmerki. Þetta hefur alltaf reynst góð lausn, því í hamagangi Hornstrandaferða, mismiklu netsambandi og rafhlöðuleysi er gott að vera með pappír.

Allir áfangastaðir sem skráðir voru í kerfið voru settir inn í öllum fjórum föllum. Þegar farseðlar voru prentaðir á íslensku fengu þeir fallbeygðan áfangastað, og mikilvægt að fara rétt með hefðir. Til dæmis ku ekki hægt að fara til Látra í Aðalvík heldur einungis „að Látrum“.


Skjáskot úr bókunarkerfinu eins og það leit út við lokun þess í júní 2024. Reynt var að hafa á forsíðu tiltækar allar algengustu skipanir daglegar afgreiðslu.


Tíminn líður

Smám saman voru gerðar á kerfinu breytingar sem miðuðu að því að einfalda daglegt starf á Vesturferðum og samstarfsaðilum. Sumar sérlausnir voru fyrir einstakar ferðir, aðrar til að hugbúnaðurinn gæti talað við vefumsjónarkerfi sem tekið var upp. Ég lauk störfum hjá skrifstofunni að mestu í lok árs 2007. 

Árið 2014 voru liðin 6 ár frá því að stuðningi við PHP4 hafði verið hætt og því var orðin knýjandi þörf á að uppfæra í PHP 5 sem þá var langtum öruggara. Á einhverjum tímapunkti náði svo hugbúnaðurinn ákveðnum þroska, í þeim skilningi að búið er að láta á allt reyna. Eitt dæmi er að úrfellingakommur og gæsalappir geta skapað vandamál í MySQL-skipunum, nema gerðar séu sérstakar ráðstafanir. Það liðu stundum mörg ár á milli villna af því tagi.

En að öðru leyti gekk forritið eins og klukka. Framkvæmdastjórar komu og fóru og flestir höfðu þeir hugmyndir um að „nútímavæða“ bókunarumsýsluna með því að taka upp önnur kerfi. Jafnoft var hætt við, vegna þess að Sirrý var svo vel sniðin að daglegu starfi á Vesturferðum.

Þegar kerfið var smíðað voru allra fyrstu símarnir með vit-tækni að byrja að koma á markaðinn. Við endalok kerfisins eru snjalltæki alltumlykjandi.


Merki kerfisins lét sólina yfir Hornbjargi kallast á við núverandi framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu.


Endalokin

Þó kerfið hafi gengið eins og klukka, og vefbókanir með greiðslugátt hafi verið hannaðar inn í kerfið fljótlega, var kerfinu þó aldrei sinnt með nógu miklum myndarskap þannig að það héldi í við þær breytingar í hugbúnaði almenn. Það var svo sem ekki skrýtið; það getur verið erfitt að réttlæta hugbúnaðarþróun sem nýtist eingöngu einu litlu fyrirtæki.

Mikilvægast var að aldrei var ráðist í að tengja kerfið með API-köllum við önnur kerfi með stærra sölunet. Því þurfti að handfæra á milli upplýsingar á milli og ekki alltaf hægt að treysta því að upplýsingar væru réttar í hvoru kerfi fyrir sig.

Á endanum var í vor ákveðið að hætta notkun á Sirrý, og lýkur þar tæplega 20 ára sögu þessa tölvukerfis. Við lokun höfðu rúmlega 18 þúsund ferðir verið skráðar, rúmlega 50 þúsund bókanir og 154 þúsund farþegar. 68 starfsmannaaðgangar voru gerðir.

Hver er lærdómurinn?

Og hvaða lærdóm má draga af þessari sögu? Það er kannski ýmislegt.

Vel lukkaður hugbúnaður þarf að endurspegla þau verkefni sem liggja fyrir og leysa raunveruleg vandamál með beinum hætti. Ef fyrirtæki er eitt í heiminum að leysa ákveðið vandamál, er best að fyrirtækið skrifi sinn hugbúnað sjálft. Það getur því verið einstaklega verðmætt ef starfsmaður getur sjálfur smíðað hugbúnaðinn sem notaður verður.

Hugbúnaður af þessu tagi er svo aldrei tilbúinn í sjálfu sér, heldur þarf hann viðhald, bæði vegna tæknibreytinga, en sérstaklega vegna breytinga í rekstrinum. Strax og viðhald hættir, byrjar að fjara undan hugbúnaðinum þó hann geti verið nothæfur lengi enn.


Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *