Fiðrildaáhrifin: Fjölgun lagadeilda bætir sjúkraskrár

by

in

Það liggur ekki í augum uppi þegar maður heyrir það fyrst, en fjölgun lagadeilda við háskóla mun að líkindum bæta sjúkraskrár.

Fyrir rúmum áratug jókst framboðið mjög af lögfræðinámi. Háskólinn á Akureyri hóf að taka nýnema í byrjun aldarinnar, Háskólinn á Bifröst einnig. Á sama tíma var í boði lögfræðinám við stóru skólana HÍ og HR.

Á Læknadögum í síðasta mánuði vakti Dögg Pálsdóttir lögfræðingur máls á því að fjöldi útskrifaðra lögfræðinga hefur aukist mjög á síðustu árum.mistok Þetta veldur því að lögfræðingar eiga erfiðara um vik að finna störf á hefðbundnum lögfræðistofum. Það er því ekki skrýtið að lögfræðistofum sem sérhæfa sig í slysabótum og skaðabótum hefur fjölgað. Þessar stofur auglýsa töluvert sem sést til dæmis þegar leitað er að slysabótum á Google.

Dögg benti á að þetta, samfara breytingum í þá átt að sjá sjúklinga sem neytendur í hefðbundnum skilningi, hefur valdið því að meiri líkur eru en áður á að sjúklingar sæki rétt sinn telji þeir meðferð eða greiningu í heilbrigðiskerfinu ábótavant. Slysabætur eru vitanlega oftast sóttar eftir raunveruleg slys, en læknamistök og meðferð í heilbrigðiskerfinu falla þó jafnan þar undir.

Þetta aftur hefur þau áhrif að meiri pressa er á lækna að sinna sjúkraskrárgerð. Ekki nægir að segja stuttlega frá niðurstöðu læknisskoðunar, heldur þarf að fara skriflega yfir hvaða próf voru gerð, hvaða einkenni voru til staðar—og hvaða einkenni voru ekki til staðar. Þannig geti læknar seinna meir bent á sjúkraskrár því til stuðnings að ákvarðanir um meðferð eða greiningar hafi verið í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar, og að allt sem eðlilegt er að skoða hafi verið skoðað.

Ég hef ekki miklar upplýsingar um gæði sjúkraskráa á Íslandi umfram það sem fram kom á málþingi um sjúkraskrár sem haldið var á Læknadögum. Þar kom fram að víða væri pottur brotinn og rými til umbóta.

Að þessu leytinu til er fjölgun lagadeilda því góð fyrir heilbrigðiskerfið.