Getnaðarvarnir eru ekki kostnaðarvirkar—eða sko, það fer eftir sjónarhorninu

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur verið mikið í fréttum upp á síðkasti vegna málaferla sem tengjast fyrirtækinu Hobby Lobby. Í stuttu máli fjallar málið um það hvort fyrirtæki geti af trúarlegum ástæðum neitað að láta sjúkratryggingu starfsmanna sinna niðurgreiða getnaðarvarnir.

John Oliver fjallar ágætlega um málið:

Það hvort fyrirtæki eigi að geta haft trúarskoðanir—og þar með sagt sig úr þeim lögum sem þeim hentar—er eitt. Hvort inntaka getnaðarvarna í sjúkratryggingapakka er kostnaðarvirk aðgerð fyrir tryggingarfélagið er annað, og spurning yfir höfuð hvort það eigi að koma til álita við ákvörðun dómsins.

Einn dómara í Hobby Lobby-málinu, vísaði í niðurstöðu sinni til mats rannsókna sem sýndu að inntaka getnaðarvarna í sjúkratryggingapakka væri kostnaðarhlutlaus aðgerð fyrir tryggingafélögin. Aðrar rannsóknir benda til þess að kostnaður tryggingarfélaganna hækki.

Ef satt er, hvernig getur það verið? Byrjum að líta á hvað tryggingafélögin bera ábyrgð á í Bandaríkjunum. Kostnaður sem hlýst af fæðingum, sem og allri þjónustu heilbrigðiskerfisins fyrir börnin, fellur á tryggingafélögin. Það að borga nokkra dali hér fyrir smokka, nokkra dali þar fyrir getnaðarvarnarpillu hér eða greiða fyrir aðrar getnaðarvarnir hlýtur að lækka þennan kostnað; hvert barn er tryggingarfélögunum svo dýrt. Eða svo skildi maður halda.

Afvöxtun gæti spilað hér einhverja rullu. Kostnaður við getnaðarvarnir fellur allur til snemma (í dag), en hagurinn af færri börnum fellur í framtíðinni og er ekki öruggur. Þegar búið er að afvaxta framtíðarkostnað vegur hann minna.

Hagurinn sem börnin skapa, aftur á móti, fellur ekki tryggingarfélögunum í skaut. Framleiðsla barnanna á fullorðinsárum kemur samfélaginu, fjölskyldu og barninu sjálfu til góða. Barnið hefur síðan gildi í sjálfu sér, tilfinningalega fyrir fjölskylduna og samfélagið. Tryggingafélagið, hinsvegar, fær ekki krónu greitt fyrir það.

Það sem mest er þó um vert er að vegna þess að getnaðarvarnir eru svo gríðarlega kostnaðarhagkvæmar, greiða flestir fyrir þær úr eigin vasa hvort sem er. Það hvort tryggingarfélagið borgar brúsann eða ekki skiptir þar litlu máli; fólk hefur nú þegar mikla stjórn á hversu mörg börn það eignast og hvenær. Útgjöldum tryggingarfélaganna er því ekki mætt með neinum breytingum í útkomu eða hegðun, eða heildarkostnaði samfélagsins ef út í það er farið.

Þetta sýnir vel hversu miklu skiptir að sjónarhorn heilsuhagfræðilegs hagkvæmnismat sé vel skilgreint, að yfirfærsla á slíkum niðurstöðum milli landa getur verið snúin og að smáatriði geta gert blússandi kostnaðarvirka meðferð óhagkvæma fyrir hluta af hagsmunaaðilunum.

Umfjöllunin er byggð á mun betur skrifaðri grein eftir Austin Frakt á bloggi New York Times.