Gott á górillið

Ég hef líklega heyrt það hjá einhverjum af sniðugu herskáu bresku trúleysingjunum—Dawkins eða Hitchens—að munurinn á eingyðistrú (til dæmis kristni) og trúleysi væri sáralítill. Báðar stefnur hafna þúsundum þeirra guða sem manneskjur dýrka og hafa dýrkað víða um heim. Í reynd skipti það sáralitlu hvort 999 eða 1000 guðum sé hafnað, trúleysi á 99,9% allra guða sameini hópana tvo.

Það má nýta þessa glasið-hálffullt nálgun einnig þegar kemur að neyslu dýraafurða. Glettilega margt sameinar kjötætur og grænmetisætur þegar allt kemur til alls.

Enginn í heiminum stundar til dæmis reglulegt mannapaát. Þó það virðist fjarstæðukennt að tala um mannapaát, simpansasteikur og górillugrillkótilettur, er gagnlegt að velta fyrir sér af hverju það sé. Af hverju er engar auglýsingar um hoppukastala og górill fyrir börnin? Má ekki bjóða þér bónóbóborgara?

Ástæðurnar eru nokkrar. Í fyrsta lagi eru það siðferðisleg rök; að rangt sé að drepa mannapa til matar því þeir séu gáfaðar skepnur. Svipuð rök eru hluti ástæðunnar fyrir því að hvalveiðar Íslendinga mæta andstöðu utan landssteinanna.

Þá má telja að mannapakjötsframleiðsla væri frekar dýr sökum hægs vaxtarhraða og lítillar frjósemi þeirra. Þar með eru umhverfisáhrifin að líkindum orðin töluverð einnig, enda er fóðurnýtingin frekar léleg. Að síðustu má telja til að erfitt sé að hafa nægilegan þéttleika eigi að framleiða almennilegt magn af kjöti. Mannapar eru félagsdýr en bara upp að ákveðnu marki og upp að ákveðnum þéttleika. Svipuð rök eru á bakvið það að hundaát er afar takmarkað og kattardýr sjaldan á matardiskum í kringum heiminn.

Í andstöðu við iðnaðareldi mannapa og hundakjötsát sameinast grænmetisætur og kjötætur. Þar eru fylkingarnar sammála um það hvað réttlætanlegt er að leggja á önnur dýr og umhverfið til þess eins að fá góða steik á diskinn.

Nashyrningar, ljón, gíraffar, höfrungar. Refir. Þetta eru dýr sem við erum sammála um að borða ekki.

Frá hundunum og mannöpunum er svo hægt að rekja sig niður stiga umhverfisáhrifa, vitrænnar getu dýra, ræktunarskilyrða og sársauka þeirra, framhjá gróðureyðandi lambakjöti og minkapelsum með málningarbletti, framhjá ostum og ommilettum, ull og leðri og niður í hunangið, þetta dísæta gubb hunangsflugunnar sem gerir teið mitt svo bragðgott.

Þumalputtareglurnar

Hér eru línurnar dregnar á ýmsum stöðum, og ýmsar reglur notaðar til að auðvelda sér hversdaginn.

 

–Ekkert hold dýra.

–En teljast fiskar til dýra?

–Ja, landhryggdýr, hvernig hljómar það?

–Þannig að skordýr eru í lagi?

–Já, og fiskur.

 

Og svona heldur umræðan áfram.  Sumir borða einungis villt kjöt. Aðrir neyta engra dýra né dýraafurða, og hafna þar með ull og silki, gelatíni og fleiru. Ég nota þumalputtaregluna „ekkert hold landhryggdýra, minnka eggjaneyslu, velja lausagönguegg, og velja inn jurtamjólk og jurtamjólkurafleiður þegar þær eru bragðgóðar.“ Ég borða með glöðu geði alla hryggleysingja og hunangsflugugubbið set ég út í teið mitt án alls samviskubits (ræktun hungangsflugna er jákvætt fyrir allt jurtalíf).

Best er að setja sér þumalputtareglu til að þurfa ekki að gera samning við sjálfan sig um það hversu þungt maður lætur bragðgæði og þægindi sín vega gagnvart siðferðislegum þáttum og umhverfisvernd. Það hvaða lína er dregin er að mörgu leyti val hvers og eins.

Af hverju ertu grænmetsæta?

Þegar grænmetisæta fær spurninguna „af hverju borðar þú ekki kjöt“ er hægt að svara með annarri spurningu: „af hverju borðar þú ekki mannapa?“

Þannig verður strax ljóst að grænmetisætur og kjötætur eru meira sammála en virðist við fyrstu sýn.

Nema þá að því leyti að annað liðið borgar glatt fyrir að ættingjar Esterar Undrasvíns séu stríðaldir við slæmar aðstæður og drepnir í þeirra nafni svo heiti brauðrétturinn verði nú ekki skinkulaus.

Ég meina—er þetta ekki alvöru fermingarveisla?

 


Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *