Hagrænt líkan um bakverki

Skematísk mynd af líkaninu

Í lok 2017 birtist í Journal of Medical Economics grein eftir mig og fernt samstarfsfólk mitt þar sem við lýsum líkani í heilsuhagfræði.

Greinin er hluti af stærra verkefni, þar sem tvær greinar bíða birtingar en ein hefur þegar verið birt. Sú grein heitir
A Profile of Low Back Pain: Treatment and Costs Associated With Patients Referred to Orthopedic Specialists in Sweden

Forsíða greinarinnar

Verkefnið byggir á stóru gagnasetti sem safnað var að stofni til frá Vestur Gautlöndum í Svíþjóð. Þar er gögnum af ýmsum tegundum steypt saman og þau tengd á kennitölum. Markmiðið er að reyna að ná betur utan um kostnað og ferli fólks sem leitar til heimilislæknisins eða missir úr vinnu vegna bakverkja.

Hér á eftir fer lausleg þýðing á útdrættinum.

Heilsuhagfræðilegt líkan af meðferðarferli bakverkja

Markmið: Að þróa heilsuhagfræðilegt líkan til að greina langtímakostnað og útkomur yfir meðferðarferli sjúklinga með verki í mjóbaki.

Gögn og aðferð: Smíðað var heilsuhagfræðilegt líkan með ákvarðanatré og Markov-hermunarlíkönum við enda hverrar greinar. Sjúklingum var fylgt frá fyrstu vísbendingu um verk í mjóbaki til 100 ára aldurs eða dauða. Gögn úr sænskum gagnasöfnum voru mötuð inn í líkanið, að stofni til frá Vestur Gautlöndum frá árunum 2008-12. Kostnaður (samskipti við heilsugæslu, sjúkrahúslegur, lyfjanotkun, vinnutap) var reiknaður í evrum á verðlagi 2016 og lífsgæði metin með EQ-5D gögnum úr gagnasöfnum og birtum greinum. Þetta var lagt saman með 3% afvöxtun. Tapað gæðaár (QALY) var metið til €70.000.

Niðurstöður: Meðalkostnaður yfir líftíma sjúklings var metinn €47,452. Þar af var vinnutap 57%. Heildarbyrði á ári vegna allra sjúklinga í Svíþjóð var metin til €8,8 milljarða. Meðalsjúklingur var metinn hafa tapað 2,7 gæðaárum á lífsleiðinni samanborið við almenning. Fyrir allt fólk sem átti samskipti við heilbrigðiskerfið yfir eitt ár er þetta 505.407 töpuð gæðaár, sem metin eru á €35,3 milljarða. Hagræn byrði auk óáþreifanlegrar byrði er þá samtals €44,1 milljarðar.

Umræða: Þetta líkan sýnir að flestir sjúklingar með verk í mjóbaki verða betri fljótt og fáir nýta sér dýra þjónustu heilbrigðiskerfisins eins og skurðaðgerðir. Líkanið er hægt að nota til að sjá almenn hagræn áhrif af inngripum eins og skurðaðgerðum. Það getur einnig hægt að nota til að sjá breiða hagræna þætti bakverkja og undirflokka, og meta hvernig breytingar á meðferðarferli hafa áhrif á lífsgæði og kostnað.