Við Tinna notum taubleyjur á barnunga dóttur okkar. Hér á eftir fara nokkrar hugleiðingar því tengdar.
Taubleyjur eru upprunalega fyrirkomulagið, það sem notað var í gegnum aldirnar áður en einnota bréfbleyjur komu til sögunnar fyrir ekki svo mörgum áratugum.
Af hverju taubleyjur?
Fyrir því að nota taubleyjur eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi er það umhverfið, en milli 5 og 10% sorps sem er urðað eru bréfbleyjur. Á móti kemur mengun af þvottaefni (á Íslandi er rafmagnskostnaður og vatnskostnaður við þvotta óverulegur), en sú mengun ku vera stærðargráðu minna alvarleg en sú af flutningi bréfbleyja, framleiðslu þeirra og förgun. Í öðru lagi er það kostnaður, en hægt er að sýna fram á að taubleyjurnar eru ódýrari, þó ljóst sé að ef maður reiknar umsýslu taubleyjanna á útseldum taxta lögfræðinga vinni bréfbleyjurnar. Í þriðja lagi hætta börn mun fyrr á bleyju ef tau er notað. Það helgast af því að tau, sérstaklega bómull, verður nokkuð óþægilegri en nútímabréfbleyjurnar með sérstökum rakadrægum innihaldsefnum.
Fyrirkomulagið okkar
Bumgenius Freetime er heildarlausn, þar sem tvöfalt eða þrefalt lag af taui er fast saman innan í vatnsheldri hlíf. Tauið inní er laust öðru megin, svo hægt er að breiða úr þeim svo þær þorni fljótt (tekur samt nokkra tíma á ofni). Þær leka nær aldrei, og eru með smellum bæði þvers og langs til að stækka og minnka eftir þörfum.
[aesop_video width=“content“ align=“center“ src=“youtube“ id=“iaKXSlrlkS8″ loop=“on“ autoplay=“on“ controls=“on“ viewstart=“on“ viewend=“on“]
Svokallaðar gasbleyjur eru afar góðar. Auðvelt er að finna myndbönd um taubleyjubrot á netinu. Gasbleyjurnar þurfa klemmur til að halda þeim saman og vatnsheldar hlífar. Kosturinn við þær er að þær eru afar ódýrar og vegna þess hversu þunnar þær eru þorna þær fljótt. Þær er einnig hægt að nota í margt annað sem viðkemur barnauppeldi, svo fínt er að kaupa haug af þessum tuskum þegar barn fæðist.
[aesop_video width=“content“ align=“center“ src=“youtube“ id=“CyvZMHvFMcE“ loop=“on“ autoplay=“on“ controls=“on“ viewstart=“on“ viewend=“on“]
Önnur útgáfa er að nota forbrotnar bleyjur. Við notum slíkar frá vörumerkinu Panda. Þær koma í þremur stærðum, og þurfa klemmu og vatnshelda hlíf. Kosturinn er að þessar er hægt að setja mjög fljótt á, en eru lengur að þorna.
Eftir því sem reynsla kemur á, virðist mér að heildarlausnin í Bumgenius-bleyjunum sé langbesti kosturinn til að bera hitann og þungann af bleyjunotkuninni. Við eigum 9 bleyjur, en ættum eiginlega að eiga fleiri. Þrátt fyrir þvott nær daglega í hálft ár sér ekki á þeim, og þær virka yfir langan tíma. Við byrjuðum að nota okkar frá fæðingu og sjáum ekki framá að hætta að nota þær í nokkra mánuði í viðbót.
Fyrst um sinn, þegar hægðirnar eru reglulegar, er heppilegt að nota þunnan hríspappír inn í bleyjurnar. Þá er hægt að sturta því niður eða henda og bleyjurnar eru þá lausar við obbann af hægðunum. Þegar frá líður, og nokkrir dagar geta liðið milli hægða, nennir maður því ekki og skolar frekar úr jafnóðum eftir því sem með þarf. Til þess notum við lítinn uppþvottabursta í sturtunni.
Við erum með IKEA-fötu með loki við hliðina á skiptiborðinu og ofan í hana setjum við bláan IKEA-poka eða svokallaðan PUL-poka, sem er einhverslags gore-tex-efni. Þessi poki er svo tekinn niður í þvottahús á hverjum degi eða annan hvern dag eftir því hvernig stendur á.
Einu sinni hefur komið lykt, og þá var það ekki af skítugum bleyjum heldur þegar of lítið þvottaefni virðist hafa verið notað. Næstu umferð þvoðum við á 90° og síðan hafa engin vandræði verið. Við þvoum með forþvotti og auka skolun á 60° og einstaka sinnum setjum við smá Rodalon með í forþvottarhólfið.
Bambus.is er frábær verslun í Borgartúninu. Allar vörurnar og þjónustan eru mjög góð.
Kostnaður
Í taubleyjunum takast á hár upphafskostnaður við taubleyjurnar og hár jaðarkostnaður við bréfbleyjurnar. Það fer eftir verðmati manns sjálfs á tíma sínum við umsýslu taubleyjanna (sem er ekki mikil), hvor liðurinn kemur betur út í heildarútreikningi, en ljóst er að við lágt verðmat á tíma eru taubleyjurnar umtalsvert ódýrari. Byrjunarpakki kostar 40-50 þúsund ef keyptar eru nýjar bleyjur og duga þær þá að líkindum fyrir fleiri en eitt barn, og er hægt að selja áfram að notkun lokinni.
Þetta er ekki heilagt
Eitt mikilvægt atriði er að ætla sér ekki að nota taubleyjur alltaf og ófrávíkjanlega. Við notum oft bréfbleyjur á nóttunni, þegar við erum á ferðinni eða tíminn til að bauka er naumur.
Hvar eru pabbarnir?
Taubleijutjattið er prýðilegur hópur á Feisinu þar sem fjallað er um notkun taubleyja og hægt að spyrja ráða. Á feisinu eru fjölmargir aðrir hópar sem meira eða minna sérhæfð markmið. Allir hóparnir eiga það sameiginlegt að vera nær eingöngu drifnir áfram af mæðrum.
Það er afar slæmt. Í fyrsta lagi skil ég ekki hversu algengt það virðist vera að mæður sjái um bleyjurnar við uppeldi barnsins, til viðbótar þá við annað sem viðkemur barnauppeldi, þá sér í lagi brjóstagjöf ef hún gengur upp. Sé málað með breiðu penslunum bendir það til þess að byrðunum sé ekki skipt jafn milli foreldra, sem er slæmt fyrir öll þrjú; báða foreldrana og barnið.
Í öðru lagi má ímynda sér að þar sem bleyjuskipti eru á herðum feðra, þá hneigist þeir frekar til þess að nota bréf, sem er slæmt fyrir umhverfið.
Þó skal ekki útilokað að pabbar sjái gjarnan um bleyjur, noti tau til jafns við mæður, en séu minna virkir á samfélagsmiðlum. Það er í öllu falli staðan með mig.
Hvað varðar samfélag taubleyjunotenda, þá er ágætt að benda á að þarna inni eru margir sem virðast safna taubleyjum og hafa byggt upp stór söfn af mismunandi tegundum og litum. Mín reynsla er að best sé að vera með sem mest af sömu tegund til að auðvelda umsýslu og gera handtökin æfðari.
Að því sögðu er þó vert og gagnlegt að benda á skrif Más Örlygssonar frá 2007 sem eru afar gagnleg og greinargóð.
Skildu eftir svar