Ég er nú nýkominn frá Montreal í Kanada. Þar var ég á nítjándu alþjóðlegu ráðstefnu ISPOR samtakanna. Nafn samtakanna, International society for pharmacoeconomics and outcomes research, útleggst á íslensku Alþjóðasamtök um lyfjahagfræði og útkomurannsóknir. Samtökin snerta þannig stóra þætti heilsuhagfræði og eru í raun og sann alþjóðasamtök heilsuhagfræðinga.
Tilefnið fyrir veru mína á ráðstefnunni var að kynna veggspjald sem er unnið upp úr áfanganiðurstöðum úr doktorsverkefninu mínu við Karolinska Institutet. Verkefnið fjallar á frekar almennum nótum um heilsuhagfræði bakverkja—og þá aðallega verkja í mjóbaki—og lýsir veggspjaldið líkani sem við erum með í smíðum og myndar ramma utan um það hvernig við munum greina gagnasett sem verið er að setja saman úr ýmsum sænskum skrám.
Margir áhugaverðir fyrirlestrar voru haldnir á ráðstefnunni og átti ég kost á að sjá nokkra, þó ég hafi einnig dregið mig til hliðar til að sinna tölvupóstinum skoða mig um í þessari fallegu borg.