Kvóti á lyfjakaup er ekki siðlaus

Grein birtist í Kjarnanum 9. júní 2015

Lyfjakaup hafa verið til umfjöllunar í tveimur aðskildum fréttamálum upp á síðkastið.

Annað þeirra fjallar um ný lyf við lifrarbólgu C. Þau lyf sem nú eru notuð á Íslandi eru fremur léleg, bæði vegna þess lyfin lækna ekki nærri því alla og vegna þess að aukaverkanir þeirra eru skelfilegar. Ný lyf sem komið hafa á markaðinn á allra síðustu árum—og hafa með takmörkunum verið tekin til notkunar í nágrannalöndum—eru nær laus við aukaverkanir og lækna nær alla sjúklinga á tólf vikum. Vandamálið er að lyfjaframleiðandinn setur afar háan verðmiða á lyfið, rúmar tíu milljónir króna fyrir meðferð. Prófessor segir höfnun lyfjakaupa vera fordæmalausa og jaðra við að vera hneyksli. Stöð 2 hefur sagt af málinu margar vel unnar fréttir.

Hitt málið fjallar almennt um lyf og neitanir frá Sjúkratryggingum og Lyfjagreiðslunefnd um greiðslu fyrir lyf. Vandamálið er þar tvíþætt. Annarsvegar eru lyf sem fá höfnun í umfjöllun Lyfjagreiðslunefndar eða Sjúkratrygginga og eru þar með ekki notuð að neinu marki. Hinsvegar eru lyf sem þegar er búið að samþykkja að ákveðinn fjöldi sjúklinga fái, og sá kvóti er búinn. Innan árs eru þannig sumir sjúklingar sem fá meðferð með ákveðnum lyfjum, og sumir sem fá ekki.

Í Kastljósi var kvótakerfið harðlega gagnrýnt. Yfirlæknir krabbameinsdeildar LSH sagði til dæmis: „Ef þessar áætlanir eru túlkaðar sem kvóti er það ekki eitthvað sem við getum sætt okkur við og gjörsamlega siðlaust í rauninni.“

Í þessari grein held ég eftirtöldu fram:

  1. fjárskortur í lyfjakaupum er kominn til að vera, og þó yfir honum geti verið skuggi brostinna vona kemur hann í raun til af góðu
  2. til að takast á við vandamálin, og þar með að taka upp meðferð við lifrarbólgu C, þarf gegnsætt og yfirvegað kerfi, sem meðal annars innifelur kvóta á lyfjakaup.

Til þess að geta undirbyggt þessar tvær niðurstöður þarf að fara um víðan völl. Þá er gagnlegt að skipta vandanum í tvennt;

  1. fjárhæð heildarútgjalda
  2. ákvarðanir um hvernig þessari fjárhæð er varið.

Fjárhæð heildarútgjalda

Fyrri þátturinn lýtur þannig að því hversu miklu er samtals varið til kaupa á lyfjum—og í þessu tilviki hversu miklu er varið til kaupa á dýrum og vandmeðförnum lyfjum — svokölluðum S-lyfjum.

Ríkið hefur marga kosti til að verja fé á góðan hátt. Það getur varið fé til vegagerðar, menningarmála, eða annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu. Einnig er hægt að fjármagna kaupin með ýmsum hætti en þó þannig að ekki sé gengið of hart fram í gjaldtöku, skattheimtu og lántöku á kostnað næstu kynslóða.

Færa má fyrir því margvísleg rök að útgjöld til lyfjamála ættu að hækka. Það hafa þau einmitt gert á síðustu árum eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Hún sýnir að bæði í krónum talið og sem hlutfall af landsframleiðslu hafa útgjöld hækkað. Árið 2015 lækkar talan að nokkru marki vegna breytinga á lyfjalögum og greiðsluþátttöku sjúklinga. Hér er ekki rými til að ræða greiðsluþátttöku sjúklinga heldur aðalmálið að útgjöld hafa á síðustu árum hækkað.

Screen.Shot.2015.06.09.at.20.18.31

Fyrir þessu eru margar ástæður. Eftir hrun myndaðist uppsafnaður halli á upptöku nýrra lyfja. Ný lyf koma sífellt á markað og banka þar með inn á borð heilbrigðisyfirvalda . Með hverju árinu sem líður þarf heilbrigðiskerfið  að þjónusta eilítið eldri þjóð sem gerir meiri kröfur um meðferð og þjónustu.

Allt er þetta til kostnaðarauka. Nema þar sem lyf lækka kostnað annarsstaðar í ríkisrekstrinum. Rammt kveður að þessum þætti í tengslum við þá kynslóð gigtarlyfja sem komist hafa í notkun síðasta áratuginn eða svo. Mörg þeirra eru fokdýr, en á móti kostnaðinum kemur að lyfin geta með litlum aukaverkunum haldið fólki af bótum og á vinnumarkaði. Kostnaðurinn sem er bókfærður sem lyfjakostnaður eykst, en annar kostnaður lækkar.

Þetta er tilfellið hjá mörgum með lifrarbólgu C. Kostnaður innan og utan heilbrigðiskerfisins lækkar við það að lækna lifrarbólgu hratt og örugglega—og þá er ótalinn persónulegi þátturinn af því að losna við þjáningar.

Hvaða lyf á að kaupa?

Hvar sem línan er dregin um hversu miklu er varið til lyfjakaupa standa heilbrigðisyfirvöld samt alltaf frammi fyrir sama vandamálinu; hvernig á að forgangsraða þeim lyfjum og sjúklingum innan fjárhagsrammans?

Áður en haldið er áfram verður að vera óumdeilt að alltaf verði hægt að nota meiri pening en þörf er á. Í fyrsta lagi eru nýju lyfin dýr. Sum kosta meira en hundrað milljónir á ári per sjúkling. Ef fjárheimildirnar eru háar munu lyfjafyrirtæki sem eiga lyf sem enn eru vernduð af einkaleyfi auðveldlega ganga á lagið og snarhækka verðið. Í mörgum tilvikum eru litlar líkur á að lyf virki, en samt líkur, og eftir því sem fjárheimildir eru hærri er hægt að veita lyf sem æ ólíklegri eru til að virka. Mörg lyf, sérstaklega krabbameinslyf, lengja líf um nokkrar vikur eða mánuði og oft er hægt að auka lyfjameðferð gegn von um misdýrmæta lengingu lífs. Með orðum Kristjáns Kristjánssonar heimspekings, þá er bónasekkinn bágt að fylla.

Peningarnir sem notaðir eru við lyfjakaup eru allir eins. Kostir lyfja eru hinsvegar mismunandi. Sum lyf lengja líf, önnur halda fólki meira inni á vinnumarkaði og af örorkubótum, enn önnur minnka þjáningu og mörg lækka kostnað annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu. Að bera saman þessa þætti er eins og að bera saman epli og appelsínur. Því hafa heilsuhagfræðingar eytt mikilli orku við að reyna að skapa eina mælieiningu sem fangar alla þessa þætti, til að hægt sé að setja hana í samhengi við kostnað lyfja. Með þessum aðferðum er hægt finna þær meðferðir sem gera mest gagn fyrir minnstan pening, og færa sig svo niður stigann og velja alltaf hagkvæmustu kostina þangað til peningurinn er búinn.

Þetta þýðir að margar meðferðir eru skildar útundan; forgangsröðun þýðir óhjákvæmlega það að sum útgjöld eru samþykkt og önnur ekki. Og ef engin formleg forgangsröðun er notuð er það háð tilviljunum, aðgangi að fjölmiðlum, eða hreinlega frekju, hvaða meðferðir fá niðurgreiðslu og hverjar ekki. Í þessu er alltaf fólgin sorg og brostnar vonir, en af tvennu illu er þó skárra að einhver yfirsýn og yfirlega liggi að baki ákvörðunum.

Það kerfi sem notað er í dag er afar ógegnsætt, stöðugum breytingum háð og ekki alltaf farið eftir þeim ramma sem löggjafinn setur. Um þetta skrifaði ég skýrslu á síðasta ári að beiðni Frumtaka. Vilji löggjafans stendur til þess að tryggja að til sé kerfi sem heldur útgjöldum til lyfjamála innan fjárheimilda, sér til þess að lyf  séu verðlögð á sanngjarnan hátt og að lyf séu keypt þar sem hver króna gerir sem mest gagn.

Kvótar eru nauðsynlegir

Til þess að halda útgjöldum innan fjárheimilda, eru gerðar áætlanir um það hversu margir sjúklingar eru taldir þurfa lyfið. Það hefur gerst ítrekað að þegar lyf sem talin eru nýtast örfáum kemst í notkun, birtast mun fleiri sjúklingar sem þurfa lyfið. Þegar það gerist er ekkert óeðlilegt að fjárveitingarvaldið staldri við, tryggi að ekki sé farið fram úr upphaflegu áætlununum og endurmeti stöðuna. Ef það er ekki gert verður til kapphlaup innan kerfisins, þar sem þeir sem eru fyrstir fá lyf, en svo er algerlega ófyrirsjáanlegt hvaða sjúklingar standa eftir lyfjalausir þegar peningurinn er búinn.

Ef yfirvöld setja kvóta, geta þau nýtt hann til að knýja fram afslætti frá lyfjafyrirtækjum — ef uppsett verð og magn er alltaf greitt óháð aðstæðum er ansi stutt í að lyfjafyrirtækin gangi á lagið. Auk þess stuðla slíkir kvótar að því að lyfjum sé ekki smyglað inn á fjárveitingar með því að segja einungis örfáa sjúklinga þurfa lyfið þegar fjöldi þeirra er umtalsvert meiri. Að síðustu má nefna að kvótasetning innan lyfjaflokka skapar hvata fyrir lækna til að velja þá sjúklinga sem mest gagn hafa af lyfjunum. Slík forgangsröðun þarf því miður oft að fara fram.

Þetta kvótakerfi er á engan hátt einsdæmi. Nær allir þættir ríkisrekstrarins eru markaðir af kvótum í einni eða annarri mynd. Fjöldi rúma á sjúkrahúsum og fjöldi heilbrigðisstarfsfólks marka hversu margir geta fengið meðferð. Biðlistar eru víða í aðgerðir og meðferðir ýmisskonar. Þetta eru ekkert annað en kvótar. Á sama hátt ákveður ríkið hversu marga kílómetra má malbika, hversu mikið námsefni er hægt að prenta og hversu margir komast í ákveðnar námsbrautir í háskóla. Þó aðstæður séu ef til vill aðrar, er erfitt að sjá að þar sé eðlismunur og þar með að einn kvóti sé siðlaus og annar ekki.

Það væri hinsvegar siðlaust ef í gildi væri kerfi þar sem þeir sem greiðastan aðgang hafa að valdhöfum, þeir sem bestan aðgang hafa að fjölmiðlum og þeir sem eru með áhugaverðustu sjúkdómana fengju meðferð fyrst, á kostnað þeirra málsvaralausu sem ekki hafa aðgang að fjölmiðlum.

Kvótakerfi forsenda meðferðar við lifrarbólgu C

Kvótasetning er hreinlega forsenda þess að hægt sé að taka upp nýjar meðferðir yfir höfuð. Tökum dæmi. Nokkuð er á reiki hversu margir gætu nýtt sér nýju meðferðina við lifrarbólgu C, en nefnd hefur verið talan 1000, og er kostnaður við meðferð 10 milljónir. Ef lyfið er þannig samþykkt án nokkurra kvóta, fengi heilbrigðiskerfið á einu bretti leyfi til að verja 10 milljörðum króna til meðferðar. Öllum má vera ljóst að yfirvöld munu aldrei veita slíka heimild. Þá hlýtur kvótasetning að vera skárri kostur, svo þeim verst stöddu standi að minnsta kosti til boða að fá meðferð.

Með hliðsjón af þessu skarast hagsmunir í málunum tveimur sem ég nefndi í upphafi. Ef ekki er notað kvótakerfi er ljóst að ekki er minnsti séns á að lyfin við lifrarbólgu C verði tekin inn á lista samþykktra lyfja. Með öðrum orðum: ef krabbameinslæknarnir fá sínu fram og kvótasetning verður bönnuð, munu lifrarlæknarnir aldrei fá nýju lyfin í læknatöskuna sína.

Lausnin

Lausnin er ekki einföld, en hún felst meðal annars í því að færa ákvarðanatöku upp á yfirborðið, þar sem sjónarmið fjárhags og klínískra þátta eru vegin saman af rósemd og fyrir opnum tjöldum. Núverandi kerfið er því miður fremur ógegnsætt og óskilvirkt.

Um það er einnig nokkur óánægja. Læknar eru ósáttir við margar ákvarðanir sem teknar eru hjá Lyfjagreiðslunefnd og Sjúkratryggingum, og dæmi eru um að meðferðir sem fá synjun hjá þessum aðilum séu teknar upp hvort sem er og greiddar með peningum úr öðrum fjárlagaliðum. Slík staða er óheppileg og að lokum á ábyrgð ráðherra að sjá til að sæmileg sátt sé um kerfið og farið eftir þeim ákvörðunum sem þar eru teknar.

Ég er fylgjandi því að útgjöld til lyfjakaupa verði aukin. Sama hversu miklu meira fé er varið mun hinsvegar bónasekkurinn aldrei fyllast og vandamálin verða svipuð; sumir munu ekki fá lyf sem gætu gert þeim gott. Til að hafa stjórn á þessu eru kvótar líklega nauðsynlegt stjórntæki. Þetta ástand er komið til að vera. Þess vegna mikilvægt að tryggja að ákvarðanataka sé gegnsæ, yfirveguð og miði að því að gagnlegustu lyfin séu keypt, en hinum sleppt. Þar eru heilsuhagfræðileg sjónarmið verðmæt.

Þegar yfirvöld hætta eða neita að greiða lyf er það þungbær ákvörðun fyrir lækna og heilbrigðisyfirvöld og jafnan áfall fyrir sjúklinginn. Þá getur verið bót í máli að minnast þess að ástæðan fyrir fjárskortinum er sú að sífellt koma fram nýjar og betri aðferðir til að bæta líf og líðan. Sá á kvölina sem á völina.

Höfundur er heilsuhagfræðingur. Greinin er skrifuð að eigin frumkvæði og er ekki greidd af neinum. Það er þó vert að taka fram að höfundur hefur sinnt ráðgjöf gegn greiðslu fyrir ýmsa innan lands og utan, þ.á.m. lyfjaframleiðendur, lyfjainnflytjendur, sjúklingasamtök og heilbrigðisyfirvöld.