Leslistinn, frábært fréttabréf um áhugavert lesefni, fékk mig í ráðuneyti sitt. Hér er það sem ég lagði í púkkið með krúsídúllum frá Kára Finnssyni, öðrum umsjónarmannanna.

Velkominn í ráðuneyti Leslistans, Gylfi. Hann Sverrir sér yfirleitt um að bjóða í Ráðuneytið og er oftast með bakkelsi og kaffi á boðstólnum. Ég er ekki alveg jafn huggulegur og hann en vona engu að síður að það fari vel um þig. — KF

Takk fyrir að bjóða mér að vera ráðunautur. Á ég ekki að byrja að segja að ég er dyggur vikulegur lesandi fréttabréfsins ykkar. Þar kemst ég í margt bitastætt til að setja á leslistann minn.

Það gleður mig að heyra! Byrjum á byrjuninni: Hvað ertu að lesa þessa dagana?

Ég er með haug í gangi, enda nota ég fjóra mismunandi miðla til að graðga í mig lesefni. Á náttborðinu er ég með Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur sem fjallar um æsku hennar á Hornströndum. Auk þess er ég með haug af stjórnunarbókum af bókasafninu (sem ég fjalla um fyrir neðan). Í eyrunum var ég að ljúka við ævisögur Gísla á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdótturog Jónasar Hallgrímssonar eftir Pál Valsson á Storytel, og á Audible er ég að reyna að þræla mér í gegnum Becoming eftir Michelle Obama.

Þessa mánuðina er sorglega mikið af krabbameini í kringum mig, og til að hjálpa mér að takast á við það hef ég verið að endurlesa Mortality eftir Christopher Hitchens, bók sem hann skrifaði eftir að hann greindist með krabbamein og skildi við ókláraða þegar hann lést.

Svo er ég nýbúinn með Hnignun, hvaða hnignun eftir Axel Kristinsson. Sú bók er mikið tour de force þar sem hann fer á agaðan hátt í gegnum hina lífseigu mýtu um hnignun íslensks samfélags frá 1400 til 1800. Óháð tesunni er bókin yfirveguð yfirferð um krafta sem verkað hafa á þjóðina og lifnaðarhætti frá landnámi, og hvernig stjórnmálaskoðanir geta haft varanleg áhrif á söguskoðun okkar. Ég mæli sem sagt mjög með þessari bók og mun væntanlega reyna að lesa hana aftur kannski næsta sumar í von að tileinka mér betur efnið því mér fannst að það væru í henni gullkorn í nánast hverri einustu efnisgrein.

Ég les á netinu að þú ert menntaður í heilsuhagfræði — það er fag sem ég veit ósköp lítið um. Hvaða bók myndirðu mæla sérstaklega með fyrir þá sem vilja fræðast um heilbrigðismál/heilsuhagfræði?

Því miður hefur lítið verið skrifað um heilsuhagfræði með hinn svokallaða upplýsta almenning í huga. Nýlega kom út ágætis yfirlitsrit um íslenskt heilbrigðiskerfi eftir Ágúst Einarsson, og svo er hægt að benda á Holdafar eftir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur.

Á ensku bendi ég á bókina The Cost Disease eftir William Baumol, en eftir honum heitir einmitt hagfræðitilgátan sem skýrir af hverju þjónusta verður smám saman dýrari en vörur. Sú tilgáta skýrir af hverju heilbrigðiskerfið tekur alltaf stærri og stærri hluta þjóðarútgjalda. Önnur bók sem kom út á dögunum og ég hef ekki enn lesið er Why Are the Prices So Damn High eftir Helland og Taborrok, ókeypis í pdf-sniði.

Um heilbrigði og heilbrigðiskerfi almennt er flest sem bæði Atul Gawande og Ben Goldacre hafa skrifað gott, þó sá síðarnefndi fari stundum aðeins of langt í að ætla lyfjafyrirtækjum og vísindamönnum illan hug með heimsósómalýsingum. Af öðrum bókum mæli ég með Meistara allra meinaeftir Siddhartha Mukherjee, Do No Harm eftir Henry Marsh og The Immortal Life of Henrietta Lacks eftir Rebekku Skloot, allt áhugaverðar bækur og vel skrifaðar.

Þú ert for­stjóri Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða, sem ætla má að sé nokkuð umfangsmikið og ábyrgðarríkt starf — hvernig finnurðu tíma til að lesa?

Það er nú svo að í stóru og ábyrgðarmiklu starfi getur maður aldrei komist yfir allt sem maður vill. Það er því hættulegur leikur að ætla að „klára“ vinnuna, því það mun ekki takast og skilur mann eftir útbrunninn innan ekki langs tíma.

Svo er það tæknin. Kindillinn kom fyrst og gerbreytti lestrinum og nú á síðustu misserum eru það þráðlausu heyrnartólin. Heimilisstörf og barnauppeldi gefa fjölmörg tækifæri til lestrar ef þetta tvennt er til staðar; þvottahús og eldhús henta vel fyrir hljóðbækur, hoppibelgurinn og róluvöllurinn fyrir kindilinn, og ýmisskonar hangs með ungum börnum gefur rými fyrir lestur á síðu og síðu. Svo eru bókasöfn góðir staðir til að eyða klukkutíma með börnunum eftir leikskóla.

Auk þess er það kannski einmitt í stóru og ábyrgðarmiklu starfi sem lestur verður mikilvægari. Fyrir því eru tvær ástæður. Í fyrra lagi er ég stöðugt að reyna að læra og lesa mér til um hvernig ég get orðið betri. Þar hef ég til dæmis spænt í gegnum bókaflokk Hauks Inga Jónassonar og Helga Þórs Ingasonar (Skipulagsfærni, Samskiptafærni, Stefnumótunarfærni, Gæðastjórun, Leiðtogafærni o.fl.) á síðustu mánuðum, auk ýmissa bandarískra bókmennta sem eru minna eftirminnilegar.

Í seinna lagi er mikilvægt að geta hætt í vinnunni. Oft eru stór og eða erfið mál til umfjöllunar og þá er hætt við að heilu kvöldin og næturnar fari í að hugsa um málið frá öllum hliðum fram og til baka. Ef maður fær ekki frí frá vinnunni heima — hvað þá þegar maður á að vera að sofa — þá brennur maður fljótt upp. Þá hefur lestur reynst mér gagnleg leið til að dreifa huganum.

Einhverjar vefsíður eða hlaðvörp sem þú sækir meira í en önnur?

Af íslensku hlaðvarpi hlusta ég á einkar gott hlaðvarp Landspítalaþar sem ég var einmitt gestur í síðasta þætti, þegar Stefán og Ási umsjónarmenn komu í heimsókn hingað til Ísafjarðar.

Annað íslenskt sem ég mæli með er Hyldýpimagnaðri frásögn af mannskaðaveðri í Ísafjarðardjúpi 1968, Hismiðhlaðvarp um smábarnauppeldi og Skúla Mogensen, Ágætis byrjun um menningarsögu Íslands síðustu öldina og Mozart, misskilinn meistari um tónsnillinginn. Ég hlustaði svo á Þjóðhöfðingja Íslands á Storytel í lestri Veru Illugadóttur sjálfrar, og það var eins og sjálfstæð þáttaröð af hlaðvarpsþættinum hennar.

Ég hlusta töluvert á sænskt hlaðvarp. Nú þegar Lilla drevethefur lokið göngu sinni er það Stormens utveckling, sem fjallar um stjórnmál og loftslagsmál í spéspegli. Spanarna og På Minutenhafa verið lengi verið á matseðlinum, sá fyrri er gamansöm tilraun til að spá fyrir um framtíðina, en sá seinni keppni í að segja furðusögur án þess að hika eða endurtaka sig.

Að síðustu langar mig að benda á nýtt hlaðvarp sem heitir Strong songs, þar sem Bandaríkjamaðurinn Kirk Hamilton fer í gegnum eitt vinsælt lag í einu og greinir út frá tónfræði og upptökutækni.

Eru einhverjir höfundar/bækur í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

Af því sem ég hef ekki nefnt nú þegar langar mig að nefna hina bandarísku Mary Roach sem skrifar um bráðfyndnar og upplýsandi bækur um tengsl vísinda við hitt og þetta skrýtið og skemmtilegt. Bækur eins og Packing for MarsBonk: The Curious Coupling of Science and Sex, Gulp: Adventures on the Alimentary Canal og Grunt: the Curious Science of Humans at War.

Sækir þú meira í óskálduð verk (e. nonfiction) en skálduð verk?

Tvímælalaust. Heimildamyndir og heimildaþættir eru yfirleitt leiðinleg vegna þess að miðillinn hentar illa. Ég sæki því skáldskap í kvikmyndir og þætti en óskáldað í ritað eða lesið mál.

Einhverjar fleiri bækur sem þú vilt mæla með að lokum?

Já, það eru kannski fjórar sem ég myndi vilja nefna.

Ariasman eftir Tapio Koivukari fjallar á einstaklega manneskjulegan hátt um sanna sögu af fjöldamorði sem framið var á Böskum sem urðu veðurtepptir á Íslandi fyrir fjórum öldum.

Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson er fantavel skrifuð áminning um hvað stutt er síðan lífskjör voru hræðilega bág.

Um nútímamenningu eru það kannski Stofuhiti og Ást er þjófnaður, sem hvor á sinn hátt lýsa menningu á tölvuöld.

Aldeilis glæsilegt! Kærar þakkir fyrir gott spjall, Gylfi, og aragrúa góðra ábendinga. Við hlökkum til að kafa frekar í þær.


Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *