Leyfisskyld lyf: hver er innkaupastjórinn?

Síðan í vor hef ég á vegum Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda, unnið að skrifum á skýrslu um leyfisskyld lyf. Leyfisskyld lyf eru þau lyf sem eru dýr og vandmeðfarin, og gilda um þær sérstakar reglur. Þannig hljóta þau ekki greiðsluþátttöku ríkisins nema með samþykki Lyfjagreiðslunefndar og notkun þeirra er háð því að skrifaðar hafi verið formlegar klínískar leiðbeiningar. Þetta kerfi var endurskoðað fyrir nokkrum misserum og tóku ný lög gildi í maí 2013, og er fagnaðarefni að um þessi lyf skuli hafa verið gerður sérstakur rammi þar sem litið er meðal annars til heilsuhagfræðilegra sjónarmiða.bleikaslaufan

Eins og víða í heilbrigðiskerfinu hafa fjárhagsaðstæður eftir hrun sett upptöku nýrra dýrra lyfja þröngar skorður. Hvernig þessar skorður hafa verið settar hefur þó verið óljóst. Frá gildistöku nýju laganna hefur þó verið nokkur óvissa um hvernig lögin eiga að túlkast, stjórnsýslukærur hafa verið sendar Velferðarráðuneytinu og nokkur bið eftir að ákvarðanir um leyfisskyld lyf tæku gildi. Í grunnin snýst spurningin um það hvaða stofnun það er sem tekur ákvörðun um það hvort dýrt lyf hljóti greiðsluþátttöku ríkisins eða ekki — hver er í raun innkaupastjóri ríkisins?

Þetta er rótin að því að Frumtök fengu Íslenska heilsuhagfræði til að gera úttekt á málunum. Skýrslan var tilbúin í byrjun mánaðarins og verður kynnt opinberlega í næstu viku. Skýrslan verður kynnt á fundum í Velferðarráðuneytinu, Lyfjagreiðslunefnd og Sjúkratryggingum Íslands, auk þess sem ég mun kynna efni hennar meðal annars á fundi í húsakynnum Krabbameinsfélagsins, og birt opinberlega þegar fram í sækir.