Í áfanganum Heilsuhagfræði II sem ég kenndi í vor fór ég yfir Markov-ferilhópalíkön (e. Markov cohort model) sem eru afar algeng í heilsuhagfræðilegum greiningum. Markov-ferilhópalíkön eru tegund af stærra kerfi stærðfræðilegra líkana kennd við rússneska stærðfræðinginn, og eru gott millistig milli ákvarðanatrjáa (e. decision trees) sem eru oft of einföld og annarra líkana eins og stakviðburðahermana (e. discrete event simulation) sem eru nokkuð flókin.
Án þess að kenna notkun þessara líkana hér, langar mig í þessari færslu fara yfir tillögur mínar að þýðingum á helstu hugtökum þessara líkana, en eins og í ýmsum öðrum kimum fræðigreina verða fljótt til mörg íðorð til að lýsa því sem fram fer. Mörg af þessum hugtökum vantar í þau orðasöfn sem til eru, en ég hef litið til Orðabanka íslenskrar málstöðvar, Snöru (sem aftur er samsafn margra orðabóka) og íðorðaskrá í faraldsfræði. Allar athugasemdir og tillögur að betrumbótum eru vel þegnar.
Markov cohort model: Markov-ferilhópalíkan. Faraldsorðaskráin notar orðin ferilhópur og hópur til að þýða cohort, en þar sem mér þykir hópur of óljóst orð, nota ég lengri útgáfuna. Yfirleitt er hægt að sleppa -ferilhópa- þegar búið er að nefna undirtegundina einu sinni og segja Markov-líkan í staðinn.
Cohort: Ferilhópur, skv. íðorðaskrá í faraldsfræði.
State, health state: Ástand, heilsuástand. Í fleirtölu er orðið ástönd, sem kann að hljóma klunnalegt í fyrstu en venst vel. Ástand fangar merkinguna vel, og heilsu-forliðurinn er yfirleitt óþarfur.
Transition: Færsla, það er færsla úr einu ástandi í annað á milli skeiða.
Transition probability: Færslulíkur, það er líkur á að sjúklingur í gefnu ástandi færist í annað ástand (eða sitji eftir) þegar næsta skeið hefst. Samtals eru færslulíkur út úr ástandi alltaf jafnar 1, en þá eru líkur á að sitja eftir einnig taldar með. Oft eru líkur á að ferilhópur sitji eftir skilgreindar sem fyllilíkur, það er að líkur á útfærslu eru skilgreindar fyrst og afgangurinn situr eftir. Í TreeAge-forritinu er myllumerki (#) notað til að tákna fyllilíkur. Orðið fyllilíkur vísar í fyllimengi sem á ensku heitir complement.
Absorbing state: Lokaástand. Lokaástand er ástand þar sem engin færsla er út úr skeiðinu. Yfirleitt er þetta dauða-ástandið.
Cycle: Skeið. Einnig kom til greina að nota hringur eða umferð, en mér finnst skeið heppilegast, aðallega vegna þess að hringur er of almennt.
Time horizon: Tímarammi. Tímarammi er jafn fjölda skeiða margfaldaður með lengd skeiða.