Henrietta Lacks

Fyrir þá sem koma inn í heilsuhagfræði úr hagfræðiáttinni eru víða stórir helgidagar í þekkingunni á læknisfræði. Þá er mikilvægt að taka beint og horn á bola og byrja að snúa hann niður, svo snúið sé útúr vísu eftir Þórarin Eldjárn.

Góð leið til að kynnast krabbameini er að lesa The emperor of all maladies eftir Siddhartha Mukherjee. Þar sem orðið kvilli er of vægt til að lýsa krabbameini hallast ég að því að þýða titilinn sem Meistari allra meina (í stað Keisara allra kvilla). 

Bókin fer ítarlega í sögu krabbameina, hvernig þau hafa fylgt manninum frá örófi, og hvernig læknisfræðin hefur reynt að takast á við sjúkdóminn—eða þennan flokk sjúkdóma. Saga framþróunar á þessu sviði hefur verið æði brokkgeng, þar sem ýmislegt hefur verið reynt og margt mistekist. Þar sem krabbamein er flókið fyrirbæri hafa grunnrannsóknir enn ekki komist til botns í því hvernig þau verða til eða hvernig hægt er að grípa inn í líffræðilegu ferlana. Saga róttæka brjóstnámsins (e. radical mastectomy) er þannig hrollvekjandi, þar sem þekking var bágborin og ranghugmyndir fengu grasserað lengi vegna tregðu og erfiðleika við rannsókna.

Þeir sem hafa ekki fengið nóg af krabbameini eftir að hafa þrælað sér í gegnum þennan hlemm, gætu svo haldið áfram og lesið bók Rebekku Skloot, The immortal life of Henrietta Lacks, sem fjallar um rannsóknir sem farið hafa fram á HeLa frumustofninum. HeLa frumurnar voru teknar úr krabbameini fátækrar blökkukonu í Bandaríkjunum um miðja síðustu öld, og hafði þann eiginleika að lifa af og fjölga sér ef næring var fyrir hendi. Frumurnar var því hægt að nýta til rannsókna á aðskiljanlegustu málefnum, þar með talið krabbameinum. Fjölskylda Lacks, sem býr við sára fátækt í Bandaríkjunum, naut hinsvegar aldrei eins sents af þeim milljónum dala sem urðu til við nýtingu frumanna.