Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðasta mánuði, ræddi Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans meðal annars um lyfjameðferðir við erfiðum og oft fágætum sjúkdómum. Þessar meðferðir séu oft ofurdýrar og ríkið þurfi að mynda sér stefnu í notkun slíkra lyfja.
„Hvar á að draga mörkin, eða á að draga mörkin? Þetta er ekki eitthvað sem Landspítalinn getur einn ákveðið eða Sjúkratryggingar. Það þarf þarna aðkomu stjórnvalda og almennings, umræðu sem er einnig byggð á siðfræðilegum grunni. Hvernig á að forgangsraða? Auðvitað þarf að ræða almennt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, en vandamálið um forgangsröðun kemur sérlega skýrt fram þegar kemur að ofurdýrri meðferð,“ segir Páll. Hann bendir á að það séu til lyf sem kosta yfir 100 milljónir á ári fyrirmeðhöndlun á einum einstaklingi og spítalinn hafi notað slík lyf enda hafi mannslíf verið í húfi.
„Þegar ekki er búið að taka umræðuna og móta heildstæða stefnu, þá er afar erfitt að segja nei, ef ljóst er að viðkomandi lyf bjargar mannslífi – en það þarf að ræða þessi mál. Svo dæmi sé tekið; ef lyfjameðferð eins einstaklings kostar meira en að reka heilaskurðlækningar á Landspítala á ári, eigum við þá að leggja þá þjónustu niður á móti? Ef ekki, þá þarf að koma inn meira fjármagn, því það er ekki endalaust hægt einfaldlega að hagræða upp í aukinn kostnað. Það þarf að hugsa um forgangsröðun og þar getum við tekið okkar nágrannalönd til fyrirmyndar á ýmsan hátt. Og forgangsröðunin þarf að byggja á þremur hlutum. Í fyrsta lagi á kostnaði. Í öðru lagi þarf forgangsröðun að byggja á faglegum rökum, að þau séu sterk. Og í þriðja lagi á siðferðilegum þáttum. Hvaða grunngildi viljum við í samfélaginu? Ef við ætlum að hafna meðferð, á hvaða grunni á það að vera?“ spyr Páll.