Eftirfarandi grein var skrifuð sumarið 2016, áður en bæði Ari Trausti fór í framboð fyrir Vinstri græn, og áður en ég fór í framboð fyrir Viðreisn. Hugmyndin var að fá greinina birta í einhverju formi í fínum ónefndum miðli en svarið stóð á sér og greinin gleymdist. Mér finnst ágætt að birta það sem ég þó hafði skrifað niður, en finnst óþarfi að búa það til birtingar í fjölmiðli að sinni. —GÓ 25. september 2016
Fáir búa yfir jafn víðtækri og djúpri þekkingu á öllum þáttum náttúru Íslands og Ari Trausti Guðmundsson. Það endurspeglast í þeim þáttum, ritum og bókum sem hann hefur sent frá sér á síðustu áratugum. Sjaldan virðast skoðanir hans og skrif valda víðtækum deilum, og helgast það vísast af bæði þekkingu og hæfileika til að setja mál sitt fram á yfirvegaðan og rökfastan máta.
Nýjasta bók hans er því mikið fagnaðarefni. Bókin, Veröld í vanda, er sögð vera umræðubók, bók sem ætlað er að vera millistig milli vísindarita annarsvegar, sem ætlað er að séu langlíf, með skýrt afmarkað efni og agaða meðferð heimilda, og dagblaðsgreina hinsvegar þar sem heimilda er ekki getið og efnið rykfellur á dögum og vikum. Bókin sver sig meðvitað í þennan flokk bókmennta sem algengur er til dæmis á Norðurlöndunum—debattbækur.
Í bókinni eru fjórtán kaflar sem hver fjallar um sitt þema. Kaflarnir eru skýrt afmarkaðir en ná saman að dekka mjög vel alla helstu þætti samspils manns og umhverfis á Íslandi. Blandað er saman staðbundnum þáttum, svo sem sorpmálum, og hnattrænum þáttum, svo sem hnattrænni hlýnun. Úr þessu verður þó góð og heildstæð mynd. Síðarnefndu þættirnir eru settir í samhengi Íslands, þannig að vandamálið við hnattræna hlýnun er sett fram en viðbrögð og aðgerðir settar í samhengi þess sem íslenskum stjórnvöldum og Íslendingum er rátt um.
Í ljósi þess hver gefur bókina út—Hið íslenska bókmenntafélag—er borin von að bókin yrði gefin út sem rafbók, en bókmenntafélagið er líklega þrákelknasta bókaforlag landsins þrátt fyrir að hafa alla burði til að vera það framsæknasta, eins og ég hef ritað um áður.
Höfundur ákvað að láta bæði heimildaskráningu lönd og leið, og hlífa lesendum við gröfum og skýringarmyndum. Það var synd. Svarthvítar ljósmyndir í bókinni gefa henni ekki mikið meira en vel hannaðar skýringarmyndir eða gröf hefðu getað gert. Hvað varðar heimildaskráninguna, þá hefði betur farið á óformlegri heimildaskráningu þar sem helstu heimildir hefðu verið útlistaðar og fullyrðingar sem mestur styr gæti staðið um eru studdar tilvísunum. Höfundur ákvað í stað heimildaskrár að hafa lista yfir ítarefni aftast í hverjum kafla, en sá listi er bæði fremur ólíklegur til að verða að miklu gagni, meðal annars vegna þess að hann samanstendur að miklu leyti á löngum vefslóðum. Prentvillur eru margar í bókinni, til dæmis strax í efnisyfirliti.
Hver kafli hefst á ljóði eftir Ara Trausta, ljósmynd og að loknum kafla er stutt innlegg frá gestahöfundum. Hver þessara gestahöfunda hefur um það bil eina opnu til umráða. Höfundarnir koma úr ýmsum áttum, meðal annars úr fræðaheiminum. Hugmyndin er mjög góð—að jarðtengja skrif Ara og fá nýtt sjónarhorn á viðfangsefnið. Fæst innleggin bæta þó miklu við og eru mörg hver fremur bitlaus loðmulla, sem helgast máski af litlu plássi og því að flestir höfundanna eru að mestu sama sinnis og Ari. Undantekning frá þessu er þó í kaflanum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu, þar sem Heiðar Guðjónsson, sem fjárfest hefur í leit að olíu á svæðinu, færir rök fyrir því að olíuleit- og vinnsla sé skynsamleg. Plássið sem hann hefur er þó ekki mikið eða vel nýtt til að færa sannfærandi rök fyrir máli sínu. Verstur er líklega gestakaflinn um landbúnað, þar sem framkvæmdastjóri íslenskra grænmetisbænda fær að auglýsa kosti framleiðslu skjólstæðinga sinna á kostnað innfluttra vara.
Kafli fyrir kafla
Fyrsti kaflinn fjallar um náttúrunytjar og náttúruvernd, og hvar þessi hugtök eiga samleið og hvar þau standa í andstöðu hvor til annars. Kaflinn slær tóninn fyrir bókina. Annar kaflinn fjallar um sorpmál, endurvinnslu og fleira í þeim dúr, og staldrar að nokkru við vandamálið sem plast er fyrir bæði lífkerfið á landi og sjó. Þriðji kaflinn snýr að stefnumörkun, lög og alþjóðaskuldbindingar og er þar yfirferðin yfirgripsmikil og vel fram sett.
Í kaflanum um þjóðgarða á Íslandi er fjallað um hvenær þjóðgarðar eru til bóta og hvenær ekki, og hvað þarf til að þjóðgarðar geti staðið undir nafni. Þar er yfirferðin afar fróðleg. Helst er fréttnæmt í mínum augum að Ari Trausti er andvígur fyrirætlunum um þann geypistóra þjóðgarð á miðhálendinu sem breið samstaða náttúruverndarsamtaka er fyrir. Telur hann líklegt að stjórn verði ekki skilvirk og að nær sé „að mynda hægt og sígandi nokkra vel skilgreinda, minni þjóðgarða“ (s. 77).
Í kafla um loftlínur og jarðstrengi er fjallað um ýmsar hliðar dreifingar rafmagns, bæði innanlands og með sæstreng til útlanda. Kaflinn var áhugaverður fyrir mig enda líklega sá hluti bókarinnar sem var mér mest framandi. Ljóst er af lestrinum að valið milli loftstrengja og jarðstrengja er mun flóknara en ég hafði talið í fyrstu og háð mörgum þáttum.
Skógrækt, mýrar og kolefnisbinding er umfjöllunarefni næsta kafla. Þar bíða mörg verðug verkefni en smám saman er okkur að verða ljós þau gríðarlegu loftslagsáhrif sem framræsla mýra hefur verið og mun vera ef ekkert er að gert. Stórtæk inngrip af hálfu landeigenda og ríkisins eru hér mikilvæg, og hafa slíkar aðgerðir þær hliðarverkanir að auka búsvæði fugla og dýra sem lifa í votlendi.
Fuglar og refir og þá einkum refaveiðar eru umfjöllunarefni næsta kafla. Ari gagnrýnir málflutning þeirra sem vilja halda refastofninum í skefjum með veiðum og hafnar þeim röksemdum að mófuglar hverfi verði þeir látnir óáreittir; refir séu óðalsdýr og fæðuframboð haldi fjölda þeirra í skefjum hér eftir sem hingað til. Við röksemdafærsluna telur höfundur nokkur rök sem notuð hafa verið til að takmarka stofnstærð refa og hrekur síðan. Þar er þó ekki örgrannt um að felldir séu svokallaðir strámenn; engar heimildir eða raunveruleg dæmi eru tekin fyrir rökum mótherjanna sem eru ekki sett fram í samræmi við velvildarregluna. Það er svo sannarlega ekki alltaf svo, að á öllum málum séu tvær jafnréttháar skoðanir, en hér hefði gestapenninn í lok kaflans að ósekju mátt vera fylgismaður refaveiða.
[aesop_parallax img=“http://www.gyl.fi/wp-content/uploads/2016/09/refur.jpg“ parallaxbg=“on“ captionposition=“bottom-left“ lightbox=“on“ floater=“on“ floaterposition=“left“ floaterdirection=“up“]
Minkurinn er nefndur á nokkrum stöðum í kaflanum. „Um íslenskan mink gegnir öðru máli en ref. Væntanlega er nú orðið útilokað að útrýma þessu rándýri en þá gilda mannúðlegar veiðar til að halda stofninum í skefjum svo langt sem það nær. “ Ekki er tekið fram hvers vegna öðru máli gegnir um minkinn né að hversu miklu leyti hann mætti veiða. Þar er þó á ferðinni nokkuð áhugaverðari umræða; minkurinn hefur ekki árþúsundalangan hefðarrétt hér á landi og raunverulegar tilraunir hafa verið gerðar til að útrýma honum þrátt fyrir að hann sé bara spendýr eins og refurinn sem veiðir sér til matar. Í bókum eins og The new wild eftir Pearce og Where do camels belong eftir Thompson eru þó sett fram rök sem yfirfærð á íslenskar aðstæður eru fyrir því að leyfa mink að lifa óáreittur í náttúrunni.
Afmiðjun landbúnaðar
Áttundi kafli fjallar um landbúnað sem samfélagsstoð. Þar er fjallað um samspilið milli landbúnaðar, umhverfisáhrifa, byggðamynsturs og iðnvæðingar. Höfundur fjallar þar um þær breytingar sem orðið hafa í landbúnaði á síðustu áratugum; hvernig flutningar matvæla heimshorna á milli hafa breytt hagkerfum og skapað umhverfishættu. Hér verður áberandi hvernig skortur á heimildaskráningu gerir kaflann ekki nógu markvissan og orðaleppar eins og „til eru erlendir landbúnaðarsérfræðingar sem halda því fram að…“ (s. 145) og „margir eru sannfærðir um…“ (s. 146) eru notaðir.
Einkum eru höfundi hugleikin umhverfisáhrif flutnings matar heimshorna á milli, matarsóun, sjálfbærni og umbúðafargan. Hér eru vandamálin ærin—veröldin er í vanda—en ljóst er að það er ekki tilviljun. Markmiðin sem að er stefnt rekast nefnilega mörg hver í annars horn. Þannig eykur aukin notkun umbúða og frysting geymsluþol matvæla, en hvort tveggja hefur neikvæð umhverfisáhrif á annan hátt.
Verri er þó gagnrýni Ara á óhóflegan flutning matvæla milli heimshluta. Þar nefnir hann vissulega að óhjákvæmilegt sé að flytja inn stóran hluta matvæla, en að það sé gert of mikið í dag. Lausnin er afmiðjun, það að framleiða matvæli vítt og breitt og neyta þeirra sem næst framleiðslustaðnum. Skemmtilegt hefði verið ef nefnt hefði verið að ekki séu allir sammála hugmyndunum um afmiðjun; þannig stafa einungis einn tíundi af kolefnisspori matvæla í Bandaríkjunum frá flutningi [Sjá til dæmis 1 , 2 og 3], en restin stafar af framleiðslunni sjálfri. Staðan er líklega önnur á Íslandi, en þar skiptir miklu að gera greinarmun á flugflutningum og skipaflutningum. Ísland er land þar sem ómögulegt eða óhagkvæmt í öllum skilningi er að framleiða mjög margt sem talið er sjálfsagt í daglegri neyslu—hveiti, kaffi, sykur, epli. Afmiðjun slíkrar framleiðslu—í landi þar sem þörf er fyrir mannaflann samanber nýlegar atvinnuleysistölur—væri því ólíklegt til að minnka vistsporið. Slík afmiðjun innan Íslands er á sama hátt ólíkleg til að vera hagkvæm, til dæmis með tilliti til lítils markaðar, lítillar framleiðslu og þannig óhagkvæmra framleiðslueininga.
Eitt af stærri skrefum sem neytendur geta tekið—og stjórnvöld, eigi þau að beita sér—væri að minnka kjötneyslu vegna þeirra gríðarlegu áhrifa sem hún hefur á lofthjúpinn. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna kjötframleiðslu og landnotkunar er nefnt en engar tillögur Ara fjalla um þennan stóra einstaka þátt.
Í kaflanum eru dregin fram ýmis góð ráð við að minnka vistspor, til dæmis með aukinni fræðslu um umhverfisáhrif matarneyslu. En er vistsporið almennilega þekkt? Hvort er betra að sóa fimmtungi blómkáls eða að pakka öllum blómkálshausum í plast svo eingöngu tíundi hluti fari forgörðum? Hvort er betra frá umhverfissjónarmiði að ég eldi einn heima og þriðjungur matarins fari til spillis, eða að ég hringi á pitsu sem ég fæ heimsenda á bensíndrifnum bíl? Hvort er betra að kaupa íslenska tómata sem framleiddir eru með rafmagni og jarðhita sem annars hefði getað nýst til að minnka notkun Íslendinga á jarðefnaeldsneyti, eða tómata sem þurfa litla umhirðu við ræktun í Evrópu?
Af öðrum tillögum Ara til úrbóta er stórefld nýsköpun, minni útflutningur innlendra landbúnaðarvara og breyttir verslunarhættir, tæknifréttaþjónusta, samráðsnet nýskapenda til sveita og aukin samvinna allra hlutaðeigandi. Hann viðurkennir að margar tillögur útheimti hærri framlög ríkisins og hærri verð til neytenda. Margt af þessu er hluti af núverandi landbúnaðarkerfi þó í mismiklum mæli sé. Hér hefði farið vel á greiningu á því hvernig meira af því sama ætti að skila betri niðurstöðu en nú er, í stað stefnubreytingar.
Hér er enn þörf fyrir víðtækar rannsóknir á vistspori, bæði grunnrannsóknir og hagnýtar, þar sem íslensk framleiðsla og íslenskir framleiðsluferlar eru bornir saman við innflutning á hinum ýmsu matvörum. Innlegg Ara er þar gott skref í rétta átt, en betur má ef duga skal.
Með hliðsjón af þessari áherslu á aukinn landbúnað á Íslandi kemur, eins og áður hefur verið nefnt, spánskt fyrir sjónir að andmælandinn í lok kaflans skuli einmitt vera fulltrúi garðyrkjubænda á Íslandi. Hér hefði farið betur á að finna gestapenna með annað sjónarhorn á málin.
Ný orka á sjó
Í kaflanum um sjávarnytjar er svipað þema; mjög gott yfirlit er gefið yfir allar vár sem steðja að lífinu í sjónum, hvort sem það er mengun, súrnun, ofveiði, rask sjávarbotns og almennt skorts á rannsóknum. Þar er litlu við að bæta.
Eins og áður er talað á jákvæðum nótum um afmiðjun, sem í þessu tilviki felst bæði í auknum veiðum frá smábæjum nálægt miðunum, en einnig í innlendri framleiðslu orkunnar til að drífa fiskiskipaflotann. Höfundur leggur til að rafvæða skip, en þar sem úthald þarf að vera lengra megi nýta innlenda lífræna orkugjafa, svo sem lífdísi, metan eða alkóhól. Aftur nefnir Ari að slík umskipti „þurfi alllengi á stuðningi að halda, í formi niðurgreiðslna.“ Það sé nauðsynlegt til að ná fram bráðnauðsynlegum umhverfisávinningi. „Hann verður varla metinn til fjár“ (s. 177).
Í þessu síðasta verð ég að vera ósammála Ara. Umhverfisávinning er nefnilega hægt að meta til fjár. Til eru ýmsar aðferðir til þess, og er ein sú algengari að meta hnattrænan kostnað af gróðurhúsaáhrifum og deila með fjölda tonna koldíoxíðsígildum sem sleppt er. Önnur leið er að skoða markaðsverð á losunarheimildum. Það er að vísu rétt að bæði milli aðferða og innan þeirra geta niðurstöður slíkra reikniæfinga orðið æði ólíkar. Hættan er hinsvegar sú að ef ekki er gerð nein tilraun til að meta kostnað vegna umhverfisáhrifa verði kostnaðurinn í raun metinn á verðinu núll. Með öðrum orðum: það sem er ekki með í forsendum útreikninga er ekki með í niðurstöðunum.
Ég held að þar liggi einmitt hundurinn grafinn; kostnaður við losun gróðurhúsalofttegunda er ekki tekinn beint með í þeim útreikningum sem liggja til grundvallar öllum þeim aragrúa ákvarðana sem einstaklingar og fyrirtæki taka á hverjum degi um það hvernig haga skuli daglegu lífi og rekstri. Hér hafa hagfræðin og stjórnmálafræðin sett fram margar ýmsar tillögur að úrbótum, til dæmis græna skatta, en hætt er við að aukin niðurgreiðsla á innlendum orkugjöfum geti verið óhagkvæm leið til að ná fram því marki sem að er stefnt.
Ferðamenn og olíuvinnsla
Takmarkanir í ferðaþjónustu nefnist kafli sem fjallar um umhverfisáhrif ferðamannastraumsins. Þar mælir Ari fyrir heildstæðri nálgun á ferðmannaiðnaðinn, að af ferðamönnum sé innheimt gjald til að fjármagna uppbyggingu og náttúruvernd, og að ekki sé goðgá að stýra aðgengi að náttúruperlum með ýmsum leiðum.
[aesop_parallax img=“http://www.gyl.fi/wp-content/uploads/2016/09/Ýmislegt2-022-Medium-1.jpg“ parallaxbg=“on“ caption=“Hornbjarg. Mynd: GÓ. “ captionposition=“bottom-left“ lightbox=“on“ floater=“on“ floaterposition=“left“ floaterdirection=“up“]
Þrettándi kaflinn fjallar um olíuleit og -vinnslu við Ísland. Ari Trausti heldur því fram að hættan af loftslagsbreytingum vegna gróðurhúsaáhrifa sé svo mikil að óforsvaranlegt sé af Íslendingum að pumpa upp olíu. Þó er ljóst að þau rannsóknaleyfi sem gefin hafa verið út verða ekki aftur tekin og mikilvægt sé að samningar sem gerðir hafa verið séu haldnir í heiðri. Ein möguleg leið getur verið þyngri skattlagning en áður hefur verið samið um, þó ekki sé farið í smáatriði á slíkri aðgerð yfirvalda.
Færa má fjölmörg rök fyrir skaðsemi þess að vinna olíu á Drekasvæðinu. Að gríðarlegum olíulindum heimsins gefnum, má þó velta upp hversu miklu það breytir. Svíar ræða nú töluvert hvað ríkisorkufyrirtækið Vattenfall skuli gera við kolanámur í Þýskalandi í eigu fyrirtækisins. Græningjarnir vilja eiga námuna áfram til þess eins að láta kolin liggja áfram á meðan aðrir halda því fram að skárra sé að selja námurnar og verja ágóðanum til þróunar vistvænna orkugjafa.
Um kaflana um vatns- og jarðvarmavirkjanir, og samgöngumál og opnun norðursins er lítið að segja nema fagna gagnlegu og greinargóðri yfirferð þar sem höfundur skirrist ekki við að taka afstöðu.
Niðurlag
Ég fagna mjög útkomu bókarinnar sem veitir aðgengilegt yfirlit yfir helstu viðfangsefni umhverfisverndar á Íslandi. Þá er einnig vert að fagna almennt útgáfu bókar af þessu tagi; umræðubók þar sem gott pláss er gefið til að skoða frá mörgum hliðum stakt málefni. Eða, með orðum höfundar sjálfs:
Stundum er gengið of langt með sérkennilegum málflutningi í ranni náttúruverndar. Ný þjónustumannvirki nærri Landmannalaugum, í stað ófullnægjandi aðstöðu nú, eru sögð koma í veg fyrir að mjög stórt landsvæði geti hlotið tilnefningu á Heimsminjaskrá SÞ. Ein háspennulína í jörð eða lofti á að geta eyðilegt þjóðgarð eða stórt verndarsvæði. Staðhæfingar um að áhrifamikill hópur vilji afmá hálendið eða gjörnýta allar auðlindir landsins birtast heiminum. Öll þessi orð eru mikil ofrausn í samtalinu og hvorki trúverðug né farsæl. Hætt er við að fólk fælist góðan málstað sjálfbærni og verndar í svipuðum mæli og þeir sem laðast að honum út á stóryrðin. Rökrænum umræðum er ekki ætlað að gera lítið úr hugsjónum eða tilfinningabundnum viðhofum en þau geta ekki heldur komið í stað rakanna. Hér gildir samruni þekkingar og sanngirni eins og svo víða. (s. 50)
Af öllum þeim efnisatriðum sem eru í bókinni er vonandi að Ari Trausti finni sér tíma til að fjalla í lengra máli um samspil landbúnaðar og umhverfis. Þar hygg ég að enn sé hvað lengst í land að brúa bil milli mismunandi sjónarmiða og finna stefnu sem uppfyllir allar þær kröfur sem við gerum til sjálfra okkar.
Skildu eftir svar