Ég er að endurvekja vefsíðuna mína úr dvala. Inni í vefumsjónarkerfinu sé ég færslu frá því í janúar 2013—fyrir þremur árum síðan tæpum. Þar sagði meðal annars:

Þessi áramót, eins og nokkur síðustu, strengdi ég áramótaheit. Í ár ætla ég að skrifa meira. Ekki tilgreindi ég í heitinu hvar, um hvað, hvenær eða hversu mikið ég ætla að skrifa. Engin mælanleg markmið fylgdu áramótaheitinu (sem þýðir að ég mun samtímis standa við heitið og brjóta það).

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð síðustu ellefu mánuðina og bloggsíðan Lifandi mál, sem var nú býsna lifandi á sinni tíð, hefur ekki verið uppfært síðan í apríl. Síðan hefur Eiður skrifað 700 pistla og komist í Kastljósið fyrir vikið.

Ég ætla sumsé að skrifa meira, til dæmis á þetta blogg. En blogg eru á margan hátt skrýtnar skepnur. Texti sem skrifaður er á blogg eldist yfirleitt illa. Sá sem textann skrifar breytist, og þjóðfélagið breytist. Umræður, fréttir og bólur hverfa og verða fjarræn minning. Tenglar brotna. Vinahópar breytast. Þannig eru bloggfærslurnar rændar samhengi sínu, standa eftir hálfpartinn eins og hús Carls Fredricksen í kvikmyndinni Up.

Auk þess er auðvelt að verða níhílískur í öllu flóðinu af skoðunum og fjölmiðlun. En það þýðir ekki að maður eigi ekki að skrifa; mistökin og mismælin eru óumflýjanleg en oft nauðsynleg til að verða betri í að skrifa og verða betri maður. Tjáning er hluti af lífinu, og þó aðrir lifi þýðir það ekki að maður sjálfur megi það ekki. Og það að skipta um skoðun er mikilvægt og krefst æfingar. Þó það geti verið fjandanum erfiðara á stundum.

Það er því blásið til sóknar; ég ætla að skrifa meira. Fram að næstu áramótum allavega.

En það varð ekkert úr þessu þá. Ég hef skrifað skýrslur í vinnunni en bögglast gjarnan með það. Ég hef skrifað nokkur blogg um heilsuhagfræði á vefsíðu fyrirtækisins míns, Íslenskrar heilsuhagfræði, og örfáar greinar í vefmiðla (sérstaklega stoltur af greininni um Egil Skallagrímsson og Mýrarboltann á Lemúrnum). Bloggið Lifandi mál sem ég hélt úti á DV á sínum tíma og nefnt er að ofan er núna horfið. Blessunarlega hafði ég tekið afrit af færslunum og birti kannski glefsur hér smám saman.

Hvað ætla ég að gera hér?

Hugmyndin er að setja hér inn pistla og greinar sem eru blanda af hugleiðingum um líðandi stund, birting hluta sem hafa týnst í forgengilegu internetinu, og uppköst að greinum sem ég hef verið með í maganum en ekki komið í form sem mér finnst birtingarhæft í alvöru fjölmiðlum. Þetta verður af ýmsu tagi og birt óreglulega. Ég ætla að breyta greinum eftirá og uppfæra eftir þörfum, og verður það þá tekið fram neðst. Sumar greinar verða kannski á ensku ef mér finnst það þess virði að leitarvélar geti fundið það sem ég hef til málanna að leggja.

Fyrst og fremst er ætlunin að lækka þröskuldinn sem ég hef virðist hafa sett sjálfum mér um birtingu; þessa nagandi fullkomnunaráráttu sem veldur því að maður á erfitt með að skrifa þegar maður sest niður (því ekkert er nógu gott), er tregur að senda til birtingar (því ekkert er nógu gott), og sér eftir því sem maður sendir til birtingar (því það var ekki nógu gott). Þetta er safn af skrifum sem með öðrum orðum eru ekki fullkomin, en eru skref í rétta átt, verk í mótun og þróun. Þess virði að skrifa, en ekki nógu gott fyrir pappír. Steinvölur sem standa eftir þegar tíminn hefur drekkt gömlum statustum og tístum. Vörður á brokkgengri þroskasögu.

Aðrar birtingar

Það fylgir því, að ég sé það fyrir mér að efnið sem birtist hér geti gjarnan birst á öðrum vettvangi í öðrum búningi, styttri eða lengri, með öðrum vinkli eða sjónarhorni. Ef þú, lesandi góður, ert til dæmis frá fjölmiðli og vildir gjarnan sjá efnið hér í þínum miðli er sjálfsagt að hafa samband. Ég mun eftir atvikum taka efnið héðan út eða láta standa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.