Eftirfarandi grein birtist í jólablaði BB 2016. 

Um miðjan október fóru gömul bekkjarsystkin í hrönnum að fá upphringingar frá óþekktu númeri og margir voru svo kurteisir að svara símanum. Hinum megin á línunni var ég. Samskiptin hafa verið lítil sem engin síðustu árin við marga hverja af þessum gömlu félögum, en svo rétt fyrir kosningar ákvað frambjóðandinn að ganga á línuna. Minna á sig. Ég bað fólk um að hafa mig í huga þegar það færi í kjörklefann seinna í mánuðinum, og flestir tóku vel í það. Þó það nú væri—gamall bekkjarfélagi í oddvitasæti í þingkosningum á mörkum þess að komast inn.

Þetta var fyrsta kosningabaráttan sem ég hef farið í síðan í háskóla þegar ég bauð mig fram til formanns stúdentafélagsins. Flest var nýtt fyrir mér. Mér var sagt að það væri mikilvægt að heimsækja vinnustaði. Ekkert væri mikilvægara en símtöl. Aðsendar greinar væru gríðarlega mikilvægar. Enginn gæti unnið kosningar án auglýsinga í blöðum. Samfélagsmiðlar væru bráðnauðsynlegir. Framkoma í sjónvarpsþáttum væri hryggjarstykkið í hverri kosningabaráttu. Nauðsynlegt væri að heimsækja sem flesta staði í víðfeðmu kjördæminu. Passa þyrfti að verja tímanum á þeim stöðum sem hefur flesta óákveðna kjósendur. Framhaldsskólarnir væru alfa og ómega síðustu vikurnar. Öldrunarheimilin mætti ekki vanrækja. Ekki mætti undir höfuð leggjast að hvílast vel. Muna að borða.

Úr þessum ráðleggingum varð kosningabarátta sem var ekki ósvipuð poka af maskanammi í snjókomu; smávegis af mörgu en allt pínu klístrað saman einhvernveginn.

Viðreisn náði sjö mönnum inn á þing—næstbesti árangur nýs framboðs í sögunni. Því miður náðist þó ekki inn þingmaður í Norðvesturkjördæmi. Síðan hefur lítið til mín spurst. Daginn eftir kjördag, þar sem ég var með dótturina í göngutúr á snjóflóðagarðinum fyrir ofan Stórholt, var mér nefnilega boðið að vera aðstoðarmaður formanns flokksins. Ég þáði það. Síðan hef ég verið inn og út af formlegum og óformlegum fundum í ríkisstjórnarmyndun sem nær sleitulaust hafa verið í gangi frá kosningum.

Jólafrí þingstarfsmanna verður stutt þetta skiptið; þegar þetta er skrifað hefur ekki náðst samstaða um nýja ríkisstjórn og fjárlagafrumvarp enn til umfjöllunar. En það er ekki hægt að kvarta. Ef ég get tekið eitthvað með mér úr kosningabaráttunni er það sennilega mikilvægi þess að hvílast vel og muna að borða. Og hér með hef ég skrifað eina aðsenda grein.

Mér kom til eyrna að ólíklegasta fólk hefði sagst ætla að kjósa flokkinn, og gamlir flokkshundar teygðu sig langt yfir flokkslínur til að kjósa sinn mann inn á þing. Það er mér verðmætt og fyrir það er ég þakklátur.

Um leið og ég óska öllum lesendum Bæjarins besta gleðilegrar hátíðar og farsæls nýs árs þakka ég kærlega fyrir allan stuðninginn sem ég fékk í kosningunum.

One thought on “Takk fyrir mig

Skildu eftir svar við Pálmi Pálmason Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt.