Vottorð vegna ferðakostnaðar eru ósanngjörn aðgangshindrun

Það fór kannski ekki ýkja hátt, þegar umboðsmaður Alþingis birti úrskurð þann 9. ágúst, um ferðavottorð, en úrskurðurinn var nú samt ansi merkilegur.

Í stuttu máli snýst málið um þetta: Þegar heilbrigðisþjónusta er ekki í boði í heimabyggð á sjúklingur rétt á að fá ferðakostnað endurgreiddan frá Sjúkratryggingum Íslands. Í reglugerð er sjúkratryggingum uppálagt að óska eftir vottorði frá lækni í heimabyggð, en samkvæmt úrskurði umboðsmanns þrengir þessi krafa óþarflega að rétti sjúkratryggðra til heilbrigðisþjónustu og ætti að falla niður.

Gerð þessara vottorða skapar mikla vinnu fyrir lækna, ritara, skrifstofufólk og sjúklinga og bætir ekki heilbrigðisþjónustuna á nokkurn hátt. Þetta álit umboðsmann er því afar jákvætt og gefur fyrirheit um mikla réttarbót fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Raunar virðist heilbrigðisráðuneytið vera sama sinnis, því í stað þess að bera hönd fyrir höfuð sér segist það telja „að umrædd regla sé úrelt og nauðsynlegt sé að gera breytingar á reglugerðinni og afnema það skilyrði að það þurfi að vera læknir í heimabyggð viðkomandi sem þurfi að vísa sjúkratryggðum til meðferðar annað ef þjónustan er ekki í boði í heimabyggð viðkomandi eða hægt að bíða eftir skipulögðum lækningaferðum þangað.“

Af þessu má ráða að ráðuneytið hyggist gera þessar breytingar á reglugerðinni. Þar er freistandi að gera minnstu mögulegu breytingu, þ.e. fella eingöngu út kröfuna um að útgefandi vottorðsins sé læknir í heimabyggð. Það væri hinsvegar óráð.  

Hin rétta og sanngjarna breyting væri að fella kröfuna um ferðavottorð niður í heild sinni eða fella hana niður í flestum tilvikum.

Langsótt aðferð til auðgunarbrots

Í fyrsta lagi er það svo að kostnaðurinn er ekki allur greiddur af Sjúkratryggingum. Sjúklingurinn ber hluta kostnaðarins sjálfur, bæði í þeim beina en einnig í óbeinum kostnaði sem hlýst af raski á daglegu lífi. Það er því langsótt að ætla að hægt sé að nota endurgreiðslu ferðakostnaðar sem meiriháttar fjársvikaleið landsbyggðarfólks.

Stóri peningurinn er svo auðvitað í læknisþjónustunni sjálfri. Óttist yfirvöld að sjúklingar fari í tilhæfulausar ferðir til sérfræðilækna, hlýtur að þurfa að taka á þeim vanda með beinskeyttari hætti þar sem landsbyggðarfólki er ekki ætluð meiri sviksemi en öðrum íbúum þessa lands.

Þegar sérfræðiþjónusta er veitt heima og önnur smáatriði

Í tilfelli Vestfjarða er það svo að því miður er allt of lítil sérfræðiþjónusta veitt í heimabyggð. Fyrir þessu eru margar ástæður, svo sem fámenni, treg uppbygging fjarheilbrigðisþjónustu, uppbygging samninga sjúkratrygginga við sérfræðilækna, óljós mörk milli ríkisrekins og einkarekins heilbrigðiskerfis, aukin sérhæfing heilbrigðisstarfsfólks og erfiðar samgöngur. Eitt hlutverk ferðavottorða er að votta að sérfræðiþjónustan sé ekki veitt í heimabyggð og girða þar með fyrir að fólk þiggi endurgreiðslu ferðakostnaðar í þeim tilvikum.

Hér eru rökin fremur veik. Í fyrsta lagi væri sjúkratryggingum í lófa lagið að halda sjálft skrá yfir þá sérfræðiþjónustu sem veitt er um landið. Sá listi nýttist ekki eingöngu til að sannreyna ferðakostnað, heldur kortleggja þá þjónustu sem raunverulega er veitt (og ekki veitt) frá degi til dags í hinum dreifðu byggðum. Gögnin verða nú þegar til í kerfum sjúkratrygginga; það þarf bara að vinna þau upp úr gagnagrunnunum.

Þegar þjónustan er þó veitt, geta einnig staðið ýmsar ástæður til þess að sjúklingur nýti hana ekki. Sérfræðilæknirinn kann að hafa sérhæfðari tæki á stofu sinni í Reykjavík. Þá kann sjúklingurinn að hafa meðferðarsamband við annan lækni, til dæmis vegna krónískra sjúkdóma, persónulegra tengsla eða búferlaflutninga sjúklings eða læknis. Auk þess heftir þetta valfrelsi landsbyggðarsjúklinga umfram höfuðborgarbúa.

Vissulega er það svo að reglugerðin fjallar um alla sjúkdómsmeðferð, óháð því hvort um er að ræða sérfræðiþjónustu eða til dæmis heilsugæslu. Heilsugæslulæknar eru miklum mun víðar en sérfræðingar, svo eðlilegt er að undanskilja ferðalög til heilsugæslulækna, nema þá í undantekningartilvikum og væntanlega gegn vottorði. Þau tilvik yrðu fá.

Þá tekur reglugerðin einnig til ítrekaðra ferða. Þá nema endurgreiðslurnar hærri fjárhæðum og eðlilegt að einhverslags eftirlitskerfi sé til staðar. Vottorð frá lækni í héraði er þar samt frekar klunnaleg leið til þess og ekkert sem segir að læknir umfram skrifstofustarfsmann geti vottað það sem þarf að votta.

Öll vottorð þyrfti að endurskoða

Skrif á vottorðum eru stór hluti af daglegu starfi lækna og heilbrigðisgagnafræðinga. Mörg þeirra eru algerlega óþörf. Verst eru sennilega vottorð vegna skemmri veikinda sem margir atvinnurekendur og skólar krefjast. Í þeim tilvikum hringir sjúklingur á heilsugæslustöð og óskar eftir vottorði á grundvelli upplýsinga sem læknir hefur engar forsendur til að rengja. Þessu ætti að hætta enda óþörf pappírsvinna. Ef einhver er reiðubúinn að skrökva til um veikindi við vinnuveitandann eða skólann, er læknirinn ekki nein fyrirstaða.

Svo eru það tilvikin þegar heilbrigðiskerfið hefur eða ætti að hafa aðgang að gögnum sem gera vottorðin óþörf. Gríðarleg tækifæri felast í að vinna og samkeyra upplýsingar sem nú þegar eru til svo hægt sé að fækka óþörfum músasmellum, pappírsflutningi og millifærslum. Flest vottorð eru nefnilega enn á pappír eða á annan máta í forneskjulegum verkferlum. Í mörgum tilvikum er einfaldast að hætta með vottorðin, en þegar þau eru nauðsynleg, ættu þau í miklu meiri mæli að vera rafræn og sjálfvirk.

Hættum þessu

Þegar kemur að ferðakostnaðarvottorðum standa stjórnvöld frammi fyrir mati á tvenns konar kostnaði:

a) kostnaðinum við endurgreiðslu óréttmætra ferðareikninga

b) kostnaðinum við gerð vottorða, flutning þeirra og úrvinnslu.

Hvor liðurinn ætli sé stærri? Ég held að umsýslan sé miklu meiri en möguleg sviksemi. Áhugaverðari er þó kannski spurningin um það á hvaða axlir kostnaðurinn fellur. Í fyrra tilvikinu er það ríkið sem borgar óréttmæta ferðareikninga og dreifist sá kostnaður jafnt á alla skattgreiðendur. Í seinna tilvikinu er það vissulega ríkið sem ber hluta kostnaðarins (við gerð og úrvinnslu vottorða), en íbúar á landsbyggðinni bera beinan og óbeinan kostnað af vottorðastússinu. Ef kostnaðardreifingin er skoðuð með kynjagleraugum sést enn ljótari mynd.

Ég hvet því heilbrigðisráðuneytið til að ganga vasklega til þess verks að endurskoða þessa reglugerð í heild sinni með það að markmiði að aðgengi íbúa landsbyggðarinnar til heilbrigðisþjónustu sé ekki takmarkað meira en landakortið óhjákvæmilega veldur.

Höfundur er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Birtist fyrst í Heimildinni


Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *