New England Journal of Medicine hefur birt grein þar sem ég er einn meðhöfunda; A randomized, controlled trial of fusion surgery for lumbar spinal stenosis.
Hryggþrengsli eru algeng tegund bakverkja, þar sem þrýstingur myndast á mænuna í mjóbaki með verkjum og máttleysi í baki og niður í fætur. Þegar þetta lagast ekki af sjálfu sér eða með vægum inngripum er skurðaðgerð eina lausnin. Algengast hefur verið að framkvæma þrýstingsminnkun þar sem brjósk og bein eru söguð frá svo taugarnar fá rými. Læknar hafa talið að slíkt inngrip minnki stöðugleika hryggjarsúlunnar og hafa því almennt spengt samhliða, þar sem hryggjarliðirnir sitthvoru megin eru tengdir saman með málmstöngum og skrúfum.
Spengingin eykur kostnað við aðgerðina og lengir bæði aðgerðina og legutíma eftir hana. Því hafa margir velt fyrir sér hvort hægt sé að sleppa spengingunni og eingöngu þrýstingsminnka. Greinin sem NEJM birtir er afrakstur af slembinni samanburðarrannsókn þar sem annar hópurinn fær þrýstingsminnkun en hinn fær þrýstingsminnkun og spengingu. Niðurstaðan er sú að spengingin hafi engin mælanleg jákvæð áhrif þegar litið er til tveggja ára, og því sé aukakostnaðurinn í upphafi ekki réttlætanlegur.
Aðkoma mín að verkefninu var á síðari stigum þess; ætlunin var upphaflega að ég myndi skrifa heilsuhagfræðilega úttekt byggða á niðurstöðum rannsóknarinnar. Þegar það kom hinsvegar í ljós að spengingin hafði engin jákvæð áhrif á niðurstöðuna var það óþarfi; ef kostnaðurinn eykst en útkoman batnar ekki er óþarfi að pæla meira í hlutunum. Úr varð að klínísku greininni og heilsuhagfræðilegu greininni var steypt saman í eina og reynt að fá hana birta í virtasta læknatímariti heims. Það tókst, svo um munar, þar sem greinin er aðalgrein þessa tölublaðs. Henni fylgir einnig ritstjórnargrein og myndband.