Ebóluhagfræði

Ég hef lengi haldið að The Economist hefði einkaleyfi á að búa til -onomics orð (sbr. kreppanomics) en The New Yorker virðist vilja vera með í leiknum og setur nú fram Ebolanomics. Í nýrri grein eru hvatarnir á bakvið lyfjaþróun útskýrðir nokkuð vel. Þannig er til dæmis bent á að út frá sjónarhóli lyfjafyrirtækja sé ebóla „lélegur bissness“, því bæði eru sjúklingar fáir, þeir eru í löndum þar sem greiðsluvilji fyrir lyf er lágur, og svo má bæta við að lyf sem lækna eru að öðru jöfnu minna aðbær heldur en lyf við krónískum sjúkdómum.

Teikning eftir Christoph Nieman

Því næst er fjallað um annað vandamál dagsins í dag; skort á sýklalyfjum sem hrífa á fjölónæma sýkla. Þar er vandamálið það sama—lyfjafyrirtæki hafa ekki fjárfest nægjanlega í rannsóknum. Orsökin þar er hinsvegar önnur; komi fram nýtt lyf verður notkun þess líklega takmörkuð  mjög til að lengja tímann til þess að fjölónæmu sýklarnir byrja að byggja ónæmi gagnvart því líka. Sala lyfsins er því fyrirsjáanlega takmörkuð.

Lausnin sem sett er fram í grein The New Yorker er sögð munu kosta um milljarð bandaríkjadala. Í stuttu máli felst hún í að veita verðlaun því lyfjafyrirtæki sem fyrst þróar lyf sem uppfyllir kröfur sem settar eru upp, en smáatriðin er hægt að lesa í blaðinu sjálfu.