Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2024

Það eru bjartir tímar í Ísafjarðarbæ. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár endurspeglar mikinn viðsnúning þar sem tekjur aukast, skuldir lækka og allar kennitölur rekstrar eru jákvæðar.

Margar ástæður eru fyrir þessu; vaxtarkippur í atvinnulífinu, mikilvæg umbótaverkefni í rekstri Ísafjarðarbæjar og aðhaldssöm fjármálastjórn spila öll saman. Undir röggsamri forystu Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra hefur starfsfólk Ísafjarðarbæjar tekið höndum saman um að velta hverjum steini við, setja þjónustu við íbúa í forgang en virða á sama tíma mikilvægi sjálfbærs fjárhags.

Bæjarstjórnin er einhuga í nær öllum málum og er vert að þakka sérstaklega fyrir gott samstarf við bæjarfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Náum markmiðunum—langt undan áætlun

Í upphafi kjörtímabilsins settum við okkur metnaðarfull fjárhagsleg markmið sem vera skyldu leiðsögn út úr fjárhagslegum vandræðum sveitarfélagsins. Við notuðum þau til að gera fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár og svo hertust markmiðin eftir því sem líður á kjörtímabilið í takti við umbætur.

Skemmst er frá því að segja að með samþykktri fjárhagsáætlun 2024 náum við öllum okkar markmiðum um rekstur, skuldir og efnahag. Eina markmiðið sem næst ekki, að frátöldum þremur B-hluta stofnunum sem of langt mál er að rekja hér, er markmið um afborganir lána, en við því er lítið hægt að gera. Þá gerum við ráð fyrir að fjárfesta meira heldur en markmiðin gerðu ráð fyrir, og helgast það af gríðarlegri innviðaskuld og því svigrúmi sem öguð fjármálastjórn veitir. Ekki er heldur hægt að líta fram hjá því að ytri aðstæður eru krefjandi; vextir eru háir, verðbólga þrálát og kjarasamningar lausir fljótlega.

Ekki nóg með það, heldur náum við öllum stóru markmiðunum sem ætluð voru fyrir 2025, 26 og 27 um rekstrarniðurstöðu, veltufé, skuldahlutföll og fleira. Þessar tölur er hægt að skoða á bls. 60 í greinargerð með fjárhagsáætlun.

Á sama tíma eru miklar framkvæmdir fyrirhugaðar, og má þar nefna hafnabætur, tveir nýir fótboltavellir og gagngerar endurbætur á safnahúsinu.

Lægri skatthlutföll og réttlátari veitugjöld

Fyrsta skref ábyrgra stjórnmálamanna er að fá reksturinn í sjálfbært horf, en þegar það er komið er hægt að láta bætta fjárhagsstöðu endurspeglast í lægri álögum. Á næsta ári tökum við fyrsta skrefið í þessu með því að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,56% í 0,54% með vonum um að fleiri skref verði hægt að stíga á komandi árum. Þetta kemur að nokkru leyti til móts við þá hækkun fasteignamats sem orðið hefur upp á síðkastið í bænum og endurspeglar aukna trú á framtíð svæðisins.

Þá eru gerðar breytingar á veitugjöldum. Þau gjöld hafa hingað til miðast við fasteignamat. Þar sem fasteignamat er mjög mismunandi milli byggðakjarna hafa íbúar Skutulsfjarðar greitt talsvert meira fyrir vatn og fráveitu en íbúar annarra kjarna þó þjónustan sé sú sama. Þessu er nú breytt án þess að heildartekjur sveitarfélagsins breytist.

Framtíðin er björt

Íbúum Ísafjarðarbæjar hefur fjölgað um 90 það sem af er ári. Sveitarfélagið er nú með fjölmörg skipulagsmál til vinnslu sem við klárum í vetur. Sérstaklega skipta skipulagsbreytingar á Suðurtanga og miðbæ miklu máli fyrir framtíðarþróun í Skutulsfirði. Fjölmörg önnur umbótamál eru til umfjöllunar í bæjarfélaginu, og fjölmörgum lóðum hefur verið úthlutað í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins síðustu mánuði.

Þá er sveitarfélagið að taka yfir rekstur málefna fatlaðra með færslu úr byggðasamlagi sem lagt verður niður samhliða. Þessi tilfærsla styttir allar boðleiðir og gerir þjónustuna bæði ódýrari og betri. Ísafjarðarbær mun með breytingunni sinna málaflokknum fyrir hönd annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum og fá greitt fyrir í réttum hlutföllum. Umbótaverkefni af þessu tagi eru nauðsynleg til að gera reksturinn sjálfbæran á útgjaldahliðinni.

Á tekjuhliðinni er framtíðin einnig björt. Fyrirhugaðar breytingar á jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu styrkja verulega sveitarfélög eins og Ísafjarðarbæ sem eru fjölkjarna og nógu stór til að bera ábyrgð með sóma á öllum málaflokkum sveitarstjórnarstigsins.

Þá hyggjast stjórnvöld leggja af fiskeldissjóð í núverandi mynd og greiða sveitarfélögum í hlutfalli við starfsmannafjölda í fiskeldi. Fiskeldi mun halda áfram að vaxa fiskur um hrygg hér fyrir vestan, og verður mesti vöxturinn við Ísafjarðardjúp á næstu árum.

Kerecis er að undirbúa byggingu stórhýsis á Skutulsfjarðareyri. Salan á þessu ísfirska fyrirtæki inn í Coloplast í sumar voru stærstu einstöku fréttir viðskiptalífsins á Íslandi, og eru líklegar til að hafa einstök áhrif á atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Fleiri fyrirtæki eru í startholunum að byrja uppbyggingu þegar skipulagsbreytingar hafa tekið gildi.

Ísafjarðarbær, sem stærsti ferðaþjónustuaðili á Vestfjörðum, tók á móti metfjölda skemmtiferðaskipa í sumar. Umfangsmiklar framkvæmdir við hafnarkant og dýpkun héldu áfram á árinu. Næstu áfangar þess mikla verkefnis setur mark sitt á framkvæmdaáætlun næsta árs, en þessari þjónustu sést einnig skýrt merki í tekjum hafnarsjóðs sem skilar myndarlegum afgangi.

Allt styrkir þetta Ísafjarðarbæ sem hjarta sjálfbærs vaxtar á Vestfjörðum. Undir stjórn Í-lista og Örnu hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri Ísafjarðarbæjar. Við lækkum skatthlutföll, bætum þjónustu, framkvæmum hrein reiðinnar býsn og borgum niður skuldir. Árið 2024 verður frábært ár og framtíðin er björt.

Birtist fyrst á BB.is 8. desember 2023

Gylfi Ólafsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Í-listans.