Hversu dýr myndi Hafliði allur?

Í fyrirlestrum sem ég hef haldið upp á síðkastið hef ég oft brugðið upp úrklippu úr blaði Hjartaverndar frá 1997 (bls. 46), þar sem Dr. Sigurður Samúelsson fjallaði um deilur Hafliða Mássonar og Þorgils Arasonar á Alþingi árið 1120. Um deilurnar var svo upprunalega fjallað í Þorgils sögu ok Hafliða.

Dýr myndi Hafliði allur. Teikning: Halldór Baldursson.
Dýr myndi Hafliði allur. Teikning: Halldór Baldursson.

Grein Sigurðar er skemmtileg aflestrar og fjallar um bæði bakgrunn deilnanna og hvernig úr þeim var leyst; með því að Hafliði fékk sjálfdæmi um bætur fyrir fingur sem hann missti í átökum.

Niðurstaða Sigurðar er að Hafliði hafi fengið um 30 milljónir króna, þegar ekki er metinn gullhringur og feldur sem hann fékk einnig og erfiðara er að meta til fjár. Obbinn af þessum verðmætum fólst í 200 kýrverðum, sem árið 1997 var metið til 20 milljóna. Milljónirnar tíu sem við bættust voru fimm væn stóðhross, fingurgull og hlaðbúinn feldur.

Með upplýsingar frá Tryggingastofnun komst Sigurður svo að því að áverki þessi yrði líklega metinn til 15% örorku í dag. Bótaféð hefði verið 30 sinnum hærra en það sem gekk og gerðist á þeim tíma fyrir sambærilega örorku.

Ég hringdi ekki fyrir svo löngu í Landssamband kúabænda, og samkvæmt upplýsingum þaðan er mjólkandi kýr um 200 þúsund króna virði. Sá þáttur bótanna hefur hækkað um 100% á þeim 17 árum sem liðin eru síðan Sigurður stakk niður penna. Fingurinn var þannig 40 milljóna króna virði, sé litið til kýrverðanna einna saman.

Lesendum er eftirlátið að ímynda sér hvað hægt sé að gera við slíka fjárhæð í dag — og að reikna upp hversu dýr Hafliði myndi allur.