Borgarörin: fjölskylduhjól í hversdeginum

Frá því að eldri dóttir mín fæddist hefur mér fundist gaman að hjóla með hana. Eftir því sem hún hefur vaxið smám saman upp úr hjólastólnum sem ég hef fyrir hana á götuhjólinu mínu, og þegar von var á öðru barni, fór ég hinsvegar að verða óþreyjufullur að finna aðra og betri lausn á málinu. Hana fann ég, en fyrst til Noregs.

Osló hjólar í málið

Osló kynnti í fyrra áform um að niðurgreiða rafmagnshjól um jafngildi 130.000 íslenskra króna, og nægði fjárveitingin í verkefnið fyrir styrkjum á 500-1000 hjólum á fyrstur-kemur-fyrstur-fær basis. Peningarnir kláruðustu strax 1. febrúar. Markmiðið var að styðja við þessa tegund samgangna og væntanlega auka sýnileika þeirra, og vera þannig einn liður í að minnka bílaumferð í borginni (1, 2, 3). Ljóst er að ef yfirvöld styðja almenningssamgöngur, niðurgreiða rafbíla og byggja mislæg gatnamót án þess að beint gjald komi fyrir, mætti sjá stuðning við flutningshjól sem einn lið þar í. Þau henta barnafjölskyldum mjög vel, sem og sem hluti af sendiflutningsgetu fyrirtækja sem þurfa að sendast með varning.

 Á leið heim úr búðinni.

Á leið heim úr búðinni hrímkaldan eftirmiðdag.

Hvað varð fyrir valinu?

Úr varð að ég keypti Urban Arrow Family. Það var vissulega djarft án þess að hafa prófað það, en meðmælin voru einhliða á netinu svo ég lét slag standa. Fyrirtækið selur ekki beint til neytenda, og því þurfti ég að finna umboðsaðila. Enginn er á Íslandi og nokkrir sem ég hafði samband við vildu ekki senda til Íslands eða voru með vesen og moj. Ég endaði á að hafa samband við Flying Dutchman og fékk þar frábæra þjónustu.

Hjólið er með mjög stórum kassa, sæti fyrir tvö börn við stýrið og pláss fyrir barnabílstól eða annað sæti við framhjólið. Það er því leikandi hægt að nota það fyrir tvö börn eða þrjú börn auk farangurs. Hægt er að kaupa bögglabera á hjólið til viðbótar ef vill.

Þar sem ég bý á Skólavörðuholtinu var ég stressaður um að brattar brekkurnar (t.d. upp Njarðargötu) yrðu erfiðar. Því keypti ég performance útgáfuna af rafstuðningi sem er millistig í gæðaskalanum. Einnig keypti ég stykki fyrir maxi cosi barnabílstólinn fyrir yngra barnið og regnhlíf yfir allt hjólið (til að pakka því inn). Einnig er til önnur tegund af regnhlíf úr glæru plasti, sem fer bara yfir kassann, en lét það eiga sig þar sem yfirleitt eru börn hvort eð er klædd eftir veðri. Það virðist þó vera ansi sniðugt svo kannski kaupi ég með tíð og tíma.

Hjólið kom eftir töluvert vesen í tollinum í tveimur kössum sem fylla eitt bretti, og ég þurfti að setja það sjálfur saman þar sem enginn umboðsaðili er á landinu. Það tók um 3 tíma og gekk vel með aðstoð Arnars mágs míns og afar góðs kennslumyndbands, þó ég hafi seinna þurft að fá Borgarhjól til að lagfæra aðeins frambremsuna eftir mig.

Lás er fastur á afturhjólið, og ég keypti vír með tveimur augum sem ég get notað til að læsa hjólinu við eitthvað fast ef ég læt það bíða í lengri tíma. Ég þræði þá annað augað í gegnum hitt og festi í afturhjólslásinn.

Hingað komið kostaði hjólið um 600.000. Það er ekki það ódýrasta, en leysir af hólmi mikla bílanotkun, er heilnæmt og skemmtilegt og er ekki mikill peningur í samanburði við bíl (hvað þá bíl númer tvö). Mér sýnist tryggingar vera 10-15.000 á ári.

Handbragð og efnisval er allt til fyrirmyndar. Standarinn er stöðugur og sniðugur. Hnakkurinn er þægilegur og hækkar og lækkar fyrir fólk af flestri kloflengd (ég er 1,90 og enn er hægt að hækka hnakkinn; Hollendingar eru nú þrátt fyrir allt hávaxnasta þjóð heims svo hávaxnir hafa ekkert að óttast. Klofsítt fólk getur lækkað hnakkinn vel).

Keðjan er öll í lokuðu kerfi, svo engin hætta er á að buxur óhreinkist eða að keðjan detti af.

Þrjú börn oní hjóli

Rafstuðningur og rafhlaða

Eins og áður sagði keypti ég performance-útgáfuna, sem er með nokkru öflugri rafstuðning en grunnútgáfan. Til er einu stigi öflugri mótor, en af minni reynslu að dæma er þessi feykinóg. Ég kemst upp allar brekkur án vandkvæða og yfirleitt á um 20 km/klst.

Stuðningurinn er í fimm stigum, frá engum stuðningi upp í túrbó. Hann hættir þegar hraðinn er kominn upp í um 27 km/klst sem er alveg passlegt. Stuðningurinn byrjar bara að telja pedölunum er snúið; með öðrum orðum er ekki hægt að kveikja á rafmótornum og hætta að hjóla sjálfur. Örlítill hvinur er í mótornum, en ekkert sem nokkru nemur.

Rafhlöðunni er hægt að kippa af (hún er læst með lási) og taka inn í hleðslu. Drægnin er mjög fín og mér sýnist ég þurfa að hlaða einu sinni í viku á að giska nema þegar ég skýst t.d. suður í Garðabæ.

Hjól af þessum þyngdarflokki verður að mínu viti að vera með rafstuðningi nema í allra flötustu bæjum landsins, einkum svo hægt sé að nota það sér til gamans og í daglegu lífi án þess að svitna of mikið.

Bílageymslan undir turninum í Borgartúni er hlý á köldum dögum.

Dekk

Hjólið framaná er 20 tommur og aftaná 26 tommur. Dekkin eru mjög góð fyrir sumarnotkun, en fyrir vetrarnotkun þarf að kaupa nagladekk. Ég fékk nagladekk á afturhjólið á Hverfisgötunni hjá Borgarhjólum. Framdekkið var erfiðara að fá, en svo endaði Hjólasprettur í Hafnarfirði á að fá Schwalbe Marathon dekk. Þessi dekk eiga víst að vera of mjó en virka bara mjög vel. Mér hefur aldrei skrikað dekk þó úti sé glærasvell, en ég beygi að vísu ekki jafn skart og þegar aðstæður eru betri. Þar sem nagladekkin eru grófari en sumardekkinn hvín nokkuð í þeim á auðri götu, en þegar vegurinn er þakinn ís eða snjó heyrist ekkert.

Ljós og sýnileiki

Ljósin á hjólinu eru mjög fín. Þau eru drifin af batteríinu svo það og stýritölvan þurfa að vera með svo ljósin virki. Engin endurskin eru á hliðum, svo ég brá á það ráð að kaupa endurskinsborða sem ég límdi á hliðarnar. Borðann fékk ég hjá Kemi lengst upp í úthverfum og hefur reynst ágætlega hingað til. Kannski fæ ég mér teinaglit líka.

Gírar

Gírarnir eru stiglausir NuVinci-gírar. Þeir eru þeim kostum búnir, fyrir utan að vera stiglausir og að vera stýrt bara með annari hendi (en ekki báðum eins og oft er á fjallahjólum), og að hægt er að skipta um gír þó hjólið sé stopp. Breiddin er mjög góð, bæði í bröttum brekkum og uppfyrir 40 km/klst.

Einn stór galli á þeim er þó að þegar hiti fer niður fyrir -1 eða -2°C frjósa gírarnir. Þetta er afleitt. Þó er hægt að nota rafstuðninginn til að stilla álagið af, þannig að maður skilur hjólið eftir og lætur frjósa í miðlungsþungri stillingu og hækkar og lækkar rafstuðning á móti.

Á leið í Norræna húsið með tvö börn. Aukahjólið í hjólinu gerir þetta að einskonar svari hjólaheimsins við babúskunum rússnesku eða húsbílunum sem getur hýst lítinn bíl inní sér.

Rútína og daglegt líf

Það er mjög auðvelt að láta hjólið ganga inn í daglega rútínu. Rafstuðningurinn gerir það að verkum að ef maður þarf að drífa sig, brekkur eru erfiðar eða vindurinn í fangið, er hægt að skrúfa stuðninginn í botn og komast hratt og ósveittur milli staða. Sé sá gállinn á manni er líka hægt að slökkva eða minnka í rafstuðningnum og fá ágætis þjálfun. Kassinn tekur tvö eða þrjú börn, íþrótta- og skjalatösku, búðapoka og hvað svo sem hversdagurinn krefst. Hjólið hentar fyrir fólk af öllum stærðum og gerðum, og við hjónin getum bæði notað hjólið leikandi. Yfirleitt er auðvelt að ná þokklegum 20-25 km/klst. hraða.

Það tekur nokkur skipti að venjast því að hjóla hjólinu; hafa framhjólið svona framarlega og hafa kannski eitt iðandi barn í hjólinu sem situr öðru megin yfir kassanum. Svo venst meður þessu og hjólið verður hið þægilegasta. Akstur í snjó er leikur einn og raunar töluvert betri en á götuhjólinu mínu vegna þess hve þyngdarpunkturinn er lágur.

Stelpunni finnst mjög gott að sitja á hjólinu, enda útsýnið gott og hreyfingar hennar ekki jafn heftar og í stólnum á götuhjólinu. Barnabílstólsstykkið er með dempara sem er gagnlegt fyrir litla kút þegar farið er uppá eða niðraf gangstétt.

Frá því að ég fékk hjólið hefur konan verið í fæðingarorlofi og ég hef því skutlað dótturinni í leikskólann. Allan daginn er ég því á hjólinu að sendast um bæinn með kassann tómann. Aksturseiginleikar hjólsins eru þó svo góðir að þetta er mjög lipurt og þægilegt.

Síðan ég fékk hjólið hef ég getað án vandkvæða hjólað alla daga, hvort sem er í snjó eða vindi. Hjólið tekur vind glettilega vel á sig. Einungis eitt skipti hef ég skilið hjólið eftir vegna veðurs, en þá var appelsínugul stormviðvörun á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstaða

Urban Arrow Family er frábært hjól. Stóri gallinn er gírafrostið, sem þó er ekki svo mikið mál ef maður á aðgang að bílskúr eða bílakjallara, eða ef maður notar bara rafstuðninginn til að jafna álagið. Það er ókostur að ekki skuli vera umboðsaðili hér á landi og óljóst hvernig fer ef sérhæfðir hlutar hjólsins eins og Bosch-mótorinn fer að vera með vesen [Uppfært: hjól með Bosch-rafmóturum eru seld hér á landi í fleiri en einni búð, svo þetta ætti ekki að vera vandamál]. Ég mæli heilshugar með hjólinu og vona að einhver hjólabúðin eða frumkvöðullinn byrji að flytja hjólið inn.


Comments

2 svör við “Borgarörin: fjölskylduhjól í hversdeginum”

  1. Kærar þakkir fyrir flotta umfjöllun. Mig langar ansi mikið að fjárfesta í svona hjóli en það er aðeins of dýrt fyrir mig, bara sendingarkostnaðurinn er ca. 100þ.!!! Væri alveg til í að kaupa notað – svo ef þú hefur áhuga að selja, endilega láttu mig vita!

  2. Sigurður Unnar

    Bestu þakkir fyrir góða umfjöllun! Svona á að gera þetta

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *