Almennt hefur verið viðtekið í heilsufræðilegu hagkvæmnismati að reyna að leggja sem minnst gildismat í útreikninga og eftirláta lesendum og þeim sem taka ákvarðanir á grundvelli hagkvæmnismats að túlka þær út frá sínu gildismati eða viðteknu gildismati. Þetta þýðir að kostnaður og ávinningur meðferða er reiknaður út án þess að lagt sé lögfræði- eða siðferðismat í hvort kostnaðarliður eigi að vera með eða ekki. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr mikilvægi siðferðismats, heldur einungis að benda á að allir aðilar í keðju ákvarðanatökunnar hafa sitt hlutverk.
Dæmi um þetta er til dæmis kostnaður vegna aukinnar lífslengdar. Almennt er óbeinn kostnaður tekinn með í útreikninga. Ef meðferð fækkar dánartíðni þeirra sem eru á vinnufærum aldri og vinnufæru ástandi er eðlilegt að taka með í reikninginn tapaðar tekjur þessa fólks. Þetta hefur þau áhrif að jafnaði að auðveldara er að réttlæta háan kostnað við að bjarga lífi fólks, enda komi til sparnaður/tekjuauki annarsstaðar.
Hin hliðin á þessari reiknireglu er að sé sjúklingahópur ekki á vinnufærum aldri, er talið eðlilegt að taka með í útreikninga aukinn kostnað sem aukin lífslengd hefði í för með sér. Ef tekin er upp meðferð sem lengir líf fólks sem ekki er á vinnumarkaði, væri það jafngilt því að bera kíkinn upp að blinda auganu að skoða einungis kostnað við meðferðina og ekki líta til áhrifanna annarsstaðar í kerfinu.
Þessi reikniaðferð sem kennd er við CALY eða CiALY (cost in added life-years) og kalla má kostnað við aukna lífslengd (KVAL) er viðtekin til dæmis í Svíþjóð, og er hluti af forskrift TLV-stofnunarinnar um mat á hagkvæmni.
Þegar lyfinu Zytiga var synjað um greiðsluþátttöku þar í landi, var einn þáttur sem stuðlaði að lágri kostnaðarhagkvæmni það að líkanið sem lá að baki gerði ráð fyrir kostnaði vegna aukinnar lífslengdar. Þegar Carl Waller, 75 ára gamall Knivstabúi með krabbamein í blöðruhálskirtli, las sér til um ástæður þess að Zytiga hlaut ekki greiðsluþátttöku, rak hann upp stór augu þegar hann sá hvernig útreikningarnir voru gerðir. Þar sem ábendingin sem lyfið er fyrir er algengari meðal manna yfir miðjum aldri, vó kostnaður við aukna lífslengd á móti jákvæðum lyfsins og var þannig meðal þátta sem ollu því að lyfið hlaut ekki greiðsluþátttöku. Þetta taldi Carl vera aldursmismunun, og viðbrögð fjölmiðla létu ekki á sér standa.
Eftir fjölmiðlaumfjöllunina virðist TLV hafa farið að efast um aðferðir sínar. Á fundi sem haldinn var í maí og vinnufélagar mínir í Stokkhólmi fóru á, kom fram að TLV sé með viðmiðunarreglur sínar til endurskoðunar meðal annars með tilliti til þessa atriðis. Á TLV var að skilja að það væri ekki af fræðilegum rökum, heldur að neikvæða umfjöllunin væri dýrari stofnuninni og heilbrigðiskerfinu heldur en sem næmi gildi upplýsinganna sem felast í reiknireglunni.
Það sem er mikilvægt að skoða í þessu samhengi hlýtur að vera, að ef KVAL er talið vera „siðlaust“ í útreikningum, er erfitt að draga línuna áður en miklu af óbeinum kostnaði og sparnaði er sleppt úr útreikningum líka. Í öllu falli verður að draga línu um það hvaða aldurstengda kostnað má taka með og hvaða kostnað á að sleppa. Það getur orðið nokkuð snúið, bæði út frá heilsuhagfræðilegu og siðferðislegu sjónarmiði.