Lög frá Ísafirði og nærsveitum

Einn dag fyrir ekki löngu síðan reyndi ég að hafa upp á nótum að lagi Jónasar Tómassonar, Ísafjörður (í faðmi fjalla blárra). Ég fann nóturnar, en það var velkt margljósritað eintak í útsetningu sem hentaði ekki mínum spilastíl. Í píanóglamri mínu í gegnum tíðina hef ég vanist að spila það sem á ensku heitir lead sheet; laglína með texta undir og bókstafahljómum yfir. Ég hugsaði um að það væri kannski gaman að hreinskrifa lagið til birtingar. Ég átti einnig í fórum mínum ljósrit af handskrifuðum nótum frá Villa Valla og smám saman fæddist hugmyndin að því að safna í eina bók lögum sem tengjast Ísafirði eða nærsveitum með einum eða öðrum hætti.

Til þess að gefa verkefninu afmörkun, ákvað ég að höfundur þyrfti að vera frá eða hafa búið á Ísafirði eða nærsveitum, eða að lagið tengist svæðinu með beinum hætti. Það þarf að vera hægt að gera laginu að mestu skil með þessari tegund nótnaskriftar, það er laglínu og hljómum. Þau lög fá forgang sem hægt er að spila á píanó eða önnur órafmögnuð hljóðfæri og syngja með. Engin þessara reglna yrði þó án undantekninga. Því yrði svo forgangsraðað sem áður er óútgefið.

Tónlist, og ekki síst samsöngur, dregur fólk saman. Ekki bara á þeirri stund sem sungið er, heldur skapar sameiginleg tónlist og ljóð samheldni. Er það von mín að þessi bók geti verið framlag til að skilgreina og festa í sessi kanónu vestfirskrar tónlistar, en einnig dragi hún fram áður óþekkt lög sem ekki hafa birst áður. Bókin verður gormuð í A4 broti. Hverju lagi fylgir stuttur formáli um sögu lagsins og höfunda.

Á lagalistanum eru þá lög eftir löngu látna höfunda í bland við ísfirsk börn og allt þar á milli. Villi Valli, Sammi Rakari, Svanhildur Garðars, Mugison, Bragi Valdimar, Halldór Smára, Margrét Geirs, Baldur Geirmunds og mörg fleiri leggja til lög, og nokkur fleiri þori ég ekki að nefna því ég á eftir að biðja um leyfi. Auk þess mun ég misnota aðstöðu mína og birta eitthvað eftir sjálfan mig. Ef þér dettur í hug lag sem á erindi í bókina, láttu mig vita.

Þann 26. apríl veitti faðir minn móttöku styrk frá STEF til þessarar útgáfu og nú verður ekki aftur snúið. Ég er ekki með neina fasta tímaáætlun á verkið, sem ég sinni svona í hjáverkum, en það eru engar hindranir eftir sem ættu að tefja verkið meira en kannski hálft ár.


Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *