Módelsmiðurinn við Mälaren

Hríseyingurinn Siguróli Teitsson starfar nú sem heilsuhagfræðingur hjá Quantify Research í Stokkhólmi, systurfyrirtæki Íslenskrar heilsuhagfræði. Ykkar einlægur lagði nokkrar spurningar fyrir kappann um dvölina í Stokkhólmi og heilsuhagfræði almennt.

Siguróli las heilsuhagfræði í meistaranámi við HÍ. „Ég valdi mér mikla tölfræði sem hefur hjálpað mér talsvert, en ýmislegt af því sem ég fæst við hér er ekki beintengt því sem ég lærði á Íslandi. Nám getur hins vegar nýst manni á marga vegu og heilt yfir er ég mjög ánægður með dvöl mína í HÍ og námskeiðin sem ég sat þar. Það er töluvert af skýrsluskrifum og tölfræði í daglegu starfi mínu en líkönin sem ég er að vinna með hérna, sem er snar þáttur af starfinu, hafði ég hinsvegar ekki lært mikið um í náminu.“

Siguróli við skrifborðið sitt í nóvemberrökkrinu
Siguróli við skrifborðið sitt í nóvemberrökkrinu
Stundum hefur verið sagt að í hugum Íslendinga sé Stokkhólmur hin nýja Kaupmannahöfn. Siguróli er ánægður. „Það er mjög fínt að vera í Stokkhólmi. Borgin er æðisleg og við erum mjög ánægð hér. Samstarfsfélagarnir og vinnuumhverfið er einnig til fyrirmyndar.“

„Ég lít ekki á dvöl mína hér sem tímabundna, en einhvernveginn ekki heldur til næstu 10 ára. Ég tek eitt verkefni fyrir í einu og plana ekki mikið fram í tímann. Ég hef gaman af að vinna hér að þessum verkefnum og líkönum, sem eru ekki í boði heima. Búseta erlendis er líka þroskandi sem ég ætla að gefa mér góðan tíma í.“

Verkefnin eru fjölbreytt, að sögn Siguróla. „Ég er mikið að vinna mikið með lyfjameðferðir við krabbameini og að meta hagkvæmni þeirra. Við smíðum kostnaðarvirknilíkön frá grunni, og ég er til dæmis að gera eitt slíkt núna þar sem við erum að skoða lyf við ýmsum neikvæðum einkennum tíðahvarfa. Þá hef ég verið að greina gögn um þjóðfélagslega byrði af blóðleysi og krónískum nýrnasjúkdómum. Þegar ég byrjaði að vinna kom ég alveg kaldur af bekknum í allri læknisfræðinni og líffræðinni, en það lærir maður smám saman. Það er eitt af því skemmtilega við fagið, að maður fær að kynnast ýmsum geirum læknisfræðinnar og kynnast mannslíkamanum.“

Siguróli segir að Stokkhólmur hafi ekki komið sér sérlega á óvart. Hinsvegar hafi bransinn verið nokkuð frábrugðinn því sem hann hefði ímyndað sér. „Það kemur mér á óvart hvað það er mikið af verkefnum og mikið að gera. Þessi markaður, það er í ráðgjöf í heilsuhagfræði, er miklu stærri en ég hafði nokkurntímann ímyndað mér.“