Nýr landlæknir hefur sterkar skoðanir á stjórnun í heilbrigðiskerfinu

Birgir Jakobsson hefur verið skipaður landlæknir. Birgir hefur síðustu ár sinnt stjórnunarstöðum, nú síðast sem forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Það er ekki úr vegi að benda á nýlegt viðtal sem Dagens Medicin tók við Birgi um það leyti sem hann lét af þeim störfum í vor.
birgir
Þar skýtur Birgir til dæmis föstum skotum að lénsyfirvöldum. Þau greiða sjúkrastofnunum fyrir unnin verk, sem gefur þeim hvata til að ofmeðhöndla og ofgreina.

„Þetta er alveg galið. Hér erum við að reyna að fækka óþörfum heimsóknum. Þess vegna vinnur greiðslukerfið gegn markmiðum sínum, og eykur um leið kostnað. Það er ekki lagað að þeirri flóknu starfsemi sem hér fer fram.“

(Þetta vandamál hefur systurfyrirtæki Íslenskrar heilsuhagfræði, IVBAR, reynt að leysa með því að koma á fót virðisgreiðslukerfum í ýmsum sjúkdómaflokkum víða í Stokkhólmi. Ég fjalla líklega betur um það seinna, en þeir sem lesa sænsku geta lesið sér til um það á Sveus.se.)

Blaðamaður Dagens Medicin skrifaði í inngangi greinar sinnar að sér þætti ólíklegt að Birgir, sem er 66 ára gamall, ætti eftir að kunna við sig á eftirlaunum, spilandi á píanó og veiðandi á flugu. „Það er allt of mikil orka eftir í augnaráðinu til þess. Hann hefur unnið í heilbrigðiskerfinu í 35 ár og er ekki að fara að leggja niður stríðsöxina,“ myndmál sem er kannski eilítið of sterkt svona beinþýtt úr sænsku. Spá blaðamannsins hefur hinsvegar ræst með ráðningu hans í embætti landlæknis.

Á tíma sínum hjá Karolinska sjúkrahúsinu hefur hann þurft að taka eina og aðra rimmuna við hagsmunasamtök. Til dæmis voru hjúkrunarfræðingar andvígir stefnu sjúkrahússins þegar kom að mönnun yfir sumartímann. Birgir sagði samtök hjúkrunarfræðinga reyna að nýta sér stöðuna.

„Samtökin hamra á því að öryggi sjúklinga sé ógnað. En engin gögn sýna fram á það. Á sumrin drögum við hvort sem er saman seglin og sinnum bara aðkallandi verkefnum.“

Og þegar hjúkrunarfræðingar segja að þeir séu kallaðir inn úr fríi og geti ekki tekið sitt frí vegna manneklu, svarar Birgir því til að það sé alvanalegt í öðrum geirum þjóðlífsins. „Hver getur tekið frí akkúrat þegar manni hentar? Að sjálfsögðu eiga allir að fá sitt lögbundna frí, en hagsmunasamtök mega ekki ýkja mikilvægi sitt. Þegar ég er á sjúkrahúsinu á sumrin er starfsfólkið glatt og vinnur vel saman.“