Ofurlítill skerfur til viðhalds tungunni

Nú eru nokkrir mánuðir liðnir síðan Jón Sigurðsson tók við embætti forseta Hins íslenska bókmenntafélags. Starfinn er mikilvægur því félagið er sögufrægt og hefur lyft grettistaki í viðhaldi og stuðningi við íslenska menningu í ýmsum formum í gegnum tíðina.

Á vef félagsins kemur fram sú stefna að standa meðal annars vörð um íslenska tungu á tímum tæknibreytinga:

Umræður um viðgang íslenskrar tungu eru einatt á þann veg að lýst er áhyggjum af framtíð hennar. Með útgáfustarfi sínu leitast Bókmenntafélagið við að leggja fram ofurlítinn skerf til viðhalds tungunni og styrktar íslenskri menningarhefð á sviðum sem aðrir útgefendur sinna lítt eða ekki, enda ekki á markaðinn að treysta. Hér er á hinn bóginn verið að hugsa til fjarlægari framtíðar. […] Útgáfa markverðra fræðirita á mjög á brattann að sækja vegna yfirþyrmandi framboðs á afþreyingarefni, þ.á.m. í bókum, blöðum og tímaritum og annars konar margmiðlun.

Meðal annars með þessi markmið í huga hefur Bókmenntafélagið sinnt útgáfu lærdómsrita af miklum myndarskap, þar sem erlendar öndvegisbókmenntir eru þýddar af fagfólki og verkunum fylgt úr hlaði með ígrunduðum formálum og eftirmálum.

Með þetta tvennt í huga hlýtur að vakna sú hugmynd hvort ekki sé ráð að auka dreifingu þessara mikilvægu verka með því að gefa þær út á rafbókasniði. Baráttan gegn „yfirþyrmandi framboði afþreyingarefnis“ hlýtur að ganga betur sé lestur lærdómsritanna auðveldaður fremur en torveldaður.

Margt potast í rétta átt…

Langt er síðan mörg verk sem löngu eru fallin úr höfundarrétti komu út á Netútgáfunni. Einkum eru það Íslendingasögurnar sem ég hef nýtt mér þar.  Emma.is er með afar gott yfirlit yfir allar rafbækur á íslensku og vísar þar til allra þeirra vefja sem bjóða upp á rafbækur.

Nú væri hægt að hafa samband við útgefendur rafbóka og biðja um sölutölur. Líklegt er að þær séu lágar, og kemur þar margt til. Einkum þó smæð markaðarins, það að margir albestu bitarnir sem hægt væri að gefa út á rafbók eru ekki í boði, margar bækur eru á læstu sniði sem ekki er hægt að lesa á öllum lesbrettum, og á stundum hátt verð.

En það er ýmislegt sem potast í rétta átt. Amazon er farið að selja íslenskar bækur, og þó Forlagið—risinn á bókamarkaðnum—sé þar atkvæðamikið er enn nokkuð í land. Rafútgáfur verka Halldórs Laxness hafa lækkað í verði síðan ég keypti mér nokkrar fyrir nokkrum árum, og eru nú komnar niður í þrjúþúsundkallinn. Það held ég sé of hátt en ekki nógu hátt til að tuða yfir. En þá á maður að vísu eftir að eyða korterí í að krakka bókina til að koma henni inn á Kindilinn sinn. Þeir sem nenna ekki eða kunna ekki að standa í því þurfa að eiga að minnsta kosti tvö lesbretti til að geta lesið bækur af Amazon og á íslensku.

…en ekki hjá bókmenntafélaginu

Fyrir um einu og hálfu ári síðan skrifaði ég frétt um rafvæðingu Lærdómsritanna fyrir menningarritið Starafugl. Fréttin var skrifuð í kjölfar þess að Amazon opnaði fyrir íslenskar bækur á vef sínum, og lauk þar með upp gátt fyrir Kindileigendur. Í fréttinni sagði meðal annars:

Nýr framkvæmdastjóri félagsins, Ólöf Dagný Óskarsdóttir, svaraði tölvupósti undirritaðs á þá leið að hún væri áhugasöm um útgáfu rafbóka. Þó hefur engin ákvörðun verið tekin um neitt enn, önnur en að skoða málið.

Síðan hefur ekkert gerst, ja, nema að Jón Sigurðsson er orðinn forseti eftir metsetu Sigurðar Líndal.

Höfundarréttur

Voltaire er búinn að vera dauður í 237 ár og Birtíngur er því löngu fallinn úr höfundarrétti. Það liggur því beint við að gefa rafbókina ókeypis; sleppa verkinu lausu. Þar á meðal sleppa alveg læsingu (DRM). Vandamálið byrjar þegar bent er á að þýðing Halldórs Laxness á bókinni verður eftir sem áður í höfundarrétti fram til ársins 2068. Nýjustu Lærdómsritin munu ekki falla úr höfundarrétti fyrr en einhvern tímann á 22.  öld. Þá er Lærdómsritunum jafnan fylgt úr hlaði með ítarlegum for- og/eða eftirmálum. Þar eru höfundarnir margir á lífi og sumir í blóma lífsins. Að þeim gengnum eru eftir 70 ára biðtími, nema höfundarrétturinn verði framlengdur eina ferðina enn.

Mig grunar að ástæðan fyrir því að ekkert gengur með rafbókavæðingu Lærdómsritanna sé einmitt þessi; stjórnin nennir ekki að semja við alla rétthafana um nýjar útgáfur með tilheyrandi paranoju frá hverjum og einum þar sem fólk heldur að það eigi á hættu að semja af sér og missa af milljónum.

[aesop_image imgwidth=“100%“ img=“http://www.gyl.fi/wp-content/uploads/2015/11/Lærdómsrit.jpg“ align=“center“ lightbox=“on“ caption=“Samsett mynd.“ captionposition=“left“]

Ýmsar leiðir eru færar í því, og þó það sé mögulega vinna að setja saman samning til samþykktar eða synjunar hjá þýðendum, höfundum formála eða afkomenda þeirra, væri í öllu falli gaman að sjá að nýútgefnar bækur séu gefnar út samhliða á rafsniði.

Ef upphæð höfundar/þýðingalauna er flókið úrlausnarefni eru til dæmi um ýmsar málamiðlanir. Þannig var frægt þegar sjónvarpsþættirnir um Fóstbræður voru endurútgefnir á DVD. Þá komust allir rétthafar að samkomulagi um að gefa ágóðann til góðgerðarmála.

Lærdómsritin eru fjölmörg, og líkur til að ekki náist samstaða fyrst um sinn hjá öllum rétthöfum um að endurútgefa bækurnar. Rafvæðing Lærdómsritanna þarf ekki að vera heildstæð, hún má vera brotakennd. Ef þýðandi samþykkir útgáfu en ekki höfundur formála, er hægt að gefa bókina út án formálans. Eða ekki yfir höfuð. Það þýðir þó ekki að það sé betur heima setið en af stað farið.

[aesop_content color=“#474747″ background=“#d1d1d1″ width=“60%“ columns=“1″ position=“none“ imgrepeat=“no-repeat“ floaterposition=“left“ floaterdirection=“up“]

Hvað er gert annarsstaðar?

Engin sambærileg bókaröð er til í Svíþjóð. Stikkprufur sýndu þó að margar bækur eru til ókeypis á netinu, til dæmis Ríkið eftir Plató og Uppruni tegundanna eftir Darwin.

[/aesop_content]

 

Af hverju lærdómsritin?

Nú kynni einhver að spyrja af hverju ég er að hamast svona í Hinu íslenska bókmenntafélagi, og fjalla sérstaklega um lærdómsritin. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður sem ágætt er að nefna:

  • Rafbækur hafa verið að koma út smám saman hjá öðrum forlögum. Þar virðist því eitthvað starf vera farið af stað og—sem meir er um vert—hugsunin hætt að snúast eingöngu um pappír.
  • Hið íslenska bókmenntafélag er ekki eingöngu með háleit og göfug markmið, heldur er félagið ríkisstyrkt.
  • Þó lærdómsritin innhaldi höfundarréttarvarið efni (þýðingar og formála) er hryggjarstykki þeirra þó hjá þeim mörgum fallið úr höfundarrétti.
  • Lærdómsritin eru alla jafna ekki með myndum eða teikningum og fara því vel á svarthvítum skjám flestra lesbretta.
  • Þetta er bókaflokkur sem ég hef áhuga á en hef lesið minna eða á erlendum tungumálum vegna þess að ég hef mikið búið í útlöndum og kann almennt betur við að lesa af skjá en pappír.

Lærdómsritin hafa að geyma visku aldanna og að útgáfu þeirra hefur verið staðið miklum myndarbrag. Það er því til mikils að vinna að halda þeim að rafvæddum kynslóðum landsins.

Rafbækur eru ekki framtíðin. Þær eru nútíminn. Hið íslenska bókmenntafélag, sem og aðrir útgefendur bóka og fræðirita, ættu að hætta að hugsa um að það sé skref inn í framtíðina að rafvæða útgáfu sína. Það er skref inn í nútímann.

 


Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *