Hvað eiga sokkaleisti, brauðhleifur og grjóthnullungur sameiginlegt?

Þetta byrjaði að því er virðist með saklausri færslu á blogg sem ég opnaði í ágúst 2004.

Einstaklingar
Einstaklingar er fáránlegt orð. Staklingur er miklu betra, því maður getur ekki verið stakur nema vera einn.

Næstu vikur virðist mér þetta hafa verið hugleikið, því í september er opnaður gagnagrunnur um sokkaleistaorð. Þar var sokkaleistaorðum lýst svo:

Sokkaleistar

Mörg orð í íslensku eru þeirrar náttúru að segja sömu meininguna tvisvar. Hér að neðan ætla ég að safna saman, með dyggri aðstoð lesenda, þessum orðum.

Athygli skal vakin á að skilyrði fyrir því að orð geti talist sokkaleisti, er að orðið missi ekki merkingu sína (í grófum dráttum) þó það missi annan endurtekningaliðinn út. Sokkur og leisti eru fullgild orð. Aftur á móti er Vatnshlíðarvatn ekki sokkaleisti, því Vatnshlíð og Hlíðarvatn er ekki það sama og þaðan af síður það sama og upprunalega orðið.

Skilyrði fyrir því að sokkaleisti sé samþykktur er að orðið sé annaðhvort að finna í orðabók eða hafi 5 eða fleiri gúggl-svaranir.

Endilega sendið inn ykkar hugmyndir. Ég mun reglulega fara yfir það sem kemur inn og vingsa út tvítekningar, laga stafsetningarvillur og halda þessu innan almennra skynsemismarka.

Þessi leikur vakti strax kátínu meðal lesenda bloggsins. Þann 13. september 2004 skrifa ég eftirfarandi færslu.

Sokkaleistar vs orðsyrði
Góðvinur minn benti mér á að það væri mögulegt að nota orðið ‘orðsyrði’ yfir það sem hér á síðunni er talað um sem ‘sokkaleista’.

Hvað finnst lesendum?

Eiríkur Örn Norðdahl benti á að þetta væri tátólígía og í kjölfarið fór ég að grufla. Þann 20. september skrifa ég:

Klifyrði
Ég gúgglaði orðið tautology og fann þá að orðið þýðir bæði ‘sísanna’ og ‘klifun’. Klifun finnst mér gott orð, og varpa því hér með fram að það sem talað hefur verið um sem ‘sokkaleistar’ eða ‘orðsyrði’ verði kallað ‘klifyrði’.

Daginn eftir setti ég inn eftirfarandi skilgreiningu:

Klifyrði er samsett orð, þar sem orðið þýðir (í meginatriðum) það sama og þau tvö orð sem myndast sé því skipt upp.

Áfram gekk tíminn. Mörg orð voru samþykkt og mörgum synjað. Og það var gaman að vera á internetinu.

[aesop_content color=“#ffffff“ background=“#aeaeae“ columns=“1″ position=“none“ imgrepeat=“no-repeat“ floaterposition=“left“ floaterdirection=“up“]

Intermezzo

Þær eru blendnar tilfinningarnar þegar maður fer yfir 12 ára gamlar færslur á internetinu. Waybackmachine hefur geymt töluvert af fyrri ævintýrum mínum á netinu—brokkgenga þroskasögu má kalla ferðina. Þar úir saman hlutum sem maður er búinn að steingleyma og öðrum sem hafa lifað með manni síðan. Þar eru innlegg sem hafa elst vel og önnur sem hafa elst illa—annaðhvort vegna þess að þau voru mjög þétt bundin tíma og rúmi, eða vegna þess að maður hefur þroskast síðan.

 

klif1

Hér er skjáskot af klifyrðasafninu eins og það kemur á Waybackmachine. Vefurinn var stór, með skrýtinni ljósmynd af mér frá Grænlandi og var meira en bara blogg, þetta var vefsetur með litlu samfélagi sem tók þátt í virkum umræðum um heima og geima. Þarna var tískuþáttur að hætti lífstílsblaðanna (Gegt ömó), skjalasafn og tenglasafn (það var enn í tísku á þessum tíma og var kallað Vefnáttborðið).

klif2

Ég get náttúrulega ekki bannað fólki að skoða þessar myrku kompur, en tek enga ábyrgð á því sem þarna kemur fram.
[/aesop_content]

Þann 20. október var Sigga Gísla, sem þá var meðal virkra í athugasemdum á blogginu mínu (og er í dag viðskiptafélagi minn og vinur) foj yfir því að hænsnfugl sé leyft sem klifyrði en ekki vatnspollur.

Veistu.. kannski er ég bara svona vitlaus en ég skil ekki þessi klifyrði?!! Hvers vegna er hænsnfugl klifyrði en ekki t.d. vatnspollur? Hæna getur ekki staðið fyrir fugl þó fugl geti verið hæna.. fattaru mig? Það er ekki nóg að segja annaðhvort Hæna eða Fugl þegar maður vill meina Hænsnfugl, sem er þar að auki flokkunarfræðilegt heiti fugla af Hænsnfuglaætt -Galliformes.
Alveg einsog snærisspotti er bara nánari útlistun á hvers konar spotta er um að ræða.. að þessi spotti er ekki kaðalspotti eða vegspotti.
Ég get skilið salsasósa og sokkaleisti, þó mig renni í grun að orðið sokkaleisti sé svo gamalt að við vitum ekki alveg merkingu sokks og leista, hvers fyrir sig.

vá mér finnst ég hafa sagt þetta áður.. held ég hætti bara að hugsa um þetta ef ég fer ekki að skilja þetta bráðum!

Málflutningur Siggu benti á augljósa bresti í skilgreiningunni sem notast var við og urðu til miklar umræður sem lauk með því að stofnuð var klifyrðanefnd, sem notaðist við heimasmíðað kosningakerfi og ræddi í þaula hvert orð fyrir sig. Niðurstaðan varð eftirfarandi listi:

 

[aesop_content color=“#585858″ background=“#aeaeae“ columns=“4″ position=“none“ imgrepeat=“no-repeat“ floaterposition=“left“ floaterdirection=“up“]

Samþykkt klifyrði

  • Bandspotti
  • Beltisól
  • Blaðsíða
  • Bollamál
  • Brauðhleifur
  • Bréfmiði
  • Brjálæði
  • Dyragátt
  • Eldslogi
  • Fótleggur
  • Geymslusafn
  • Gilskorningur
  • Grjóthnullungur
  • Götuslóði
  • Hafsjór
  • Halarófa
  • Herramaður
  • Hitamolla
  • Hlutdeild
  • Húsbygging
  • Húskofi
  • Jaðarmörk
  • Lagareglur
  • Landspilda
  • Liðssveit
  • Ljósbjarmi
  • Ljósgeisli
  • Ljósglæta
  • Ljóstýra
  • Lækjarspræna
  • Maískorn
  • Mannfólk
  • Múrveggur
  • Pappírsörk
  • Pokaskjatti
  • Rigningarskúr
  • Róðukross
  • Rúðugler
  • Rúmfleti
  • Sauðfé Sauðkind
  • Skáhallandi
  • Snjódrífa
  • Snærisspotti
  • Sokkaleistar
  • Sólstjarna
  • Spretthlaup
  • Steinvala
  • Strákpjakkur
  • Svifflug
  • Ungabarn
  • Útvarpssendir
  • Vegslóði
  • Völusteinn
  • Þokumistur
  • Þokumóða

 

[/aesop_content]

Í kjölfar þessa reyndi ég að wiki-væða kerfið og bjó til flókið kosninga- og umræðukerfi sem opið skyldi öllum almenningi. Þær fyrirætlanir fóru allar í vaskinn þegar vélrænir óþokkar fóru að senda inn tengla á klámsíður og ósamþykkta skuggabanka- og fjárfestingastarfsemi. Ég lokaði kerfinu á meðan ég reyndi að klóra mig fram úr skynsamlegri lausn á vandamálinu. Lausnina fann ég ekki í flýti, klifyrðin gleymdust og týndust í ryki rafrænna miðla.

Lokaorð: Ég skrifaði uppkast að þessari samantekt í nóvember 2015 en bjó ekki pistilinn til birtingar þá. Í skeyti frá Unnari Reynissyni, sem á sínum tíma var virkasti klifyrðasmiðurinn, að kvöldi dags 15. apríl 2016, benti hann á orðið eldibrandur. Ég held að það sé prýðilegt klifyrði, og með þetta nýja orð í safnið opna ég umræðuhalana fyrir fleiri klifyrðum, 16. apríl 2016.


Comments

4 svör við “Hvað eiga sokkaleisti, brauðhleifur og grjóthnullungur sameiginlegt?”

  1. Finnbogi

    Sæll.
    Held að þessi gætu passað í kladdann : lokalokalok og bílskrjóður.

  2. Hvað með orðið valkostur. Ég man ekki eftir neinu samhengi í bráð sem krefst þess að orðið innihaldi bæði val og kost. T.d. nægir alveg að segja að eitthvað sé góður kostur? Er valkostur þá klifyrði?

    1. Bílskrjóður og valkostur passa bæði. Lokalokalok passar hinsvegar ekki, á sama hátt og vatnsdalsvatn, því hver orðliður þrengir merkingu orðsins.

  3. Guðjón Torfi Sigurðsson

    Í umræðu í skólastofu í dag barst hið skemmtilega götuheiti Hallabrekka í tal. Sem er sjálfsagt af svipuðum rótum runnið og Brattabrekka. Datt mér þá í hug þessi klifyrðaumfjöllun. Falla sérnöfn undir skilgreininguna?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *